miðvikudagur, september 30, 2009

30. september 2009 - Vandræði með bifreiðar!

Eins og öllum sem þekkja mig er kunnugt, er ég helst þekkt fyrir að fara ótroðnar slóðir í lífinu og stundum gegn því sem talið er sjálfsagt og gott. Þegar kreppan var að komast í hámark, ellefu mánuðum eftir hrunið, keypti ég mér bíl. Það er auðvitað allt gott og blessað að kaupa sér Grand Cherokee með stórri vél þegar haft er í huga að ég held áfram að ganga í vinnuna og ek aðeins 5000 km á ári, en samt, það er kreppa í landinu.

Um daginn var ég að keyra Lyngdalsheiðina og í öllum hristingnum fór framljósapera og ég sem þoli ekki að vera á eineygðum bíl. Þegar ég komst að ljósaleysinu, renndi ég við á bensínstöð til að kaupa nýja framljósperu, en starfsfólkið þar hristi bara hausinn, vissi ekkert hverskonar pera ætti að vera í svona bíl. Ég ákvað þá að skoða peruna, en við athugun á bílnum virtist það ekkert áhlaupaverk að skipta um peruna, rafgeymirinn fyrir aftan og mikill bálkur fyrir ofan ljósastæðið. Mér fellust hendur og sá að peruskiptin yrðu meiriháttar mál, greinilega verri en á Toyotu þar sem rífa þarf rafgeymirinn í burtu þegar skipt er um peru, og sló peruskiptunum á frest.

Ég spurði tvo vinnufélaga mína sem eiga svipaða bíla, hvernig ætti að skipta um peruna, en hvorugur vissi. Ekki var mikið gagn að bæklingnum sem fylgdi bílnum, því hann var á frönsku og ég bölvaði mér í sand og ösku fyrir að hafa ekki keypt bílinn þegar Kristín vinkona mín „Parísardama“ var á landinu í sumar.

Allt í einu datt mér eitt þjóðráð í hug. Jóel æskuvinur minn hlýtur að vita af svona bækling, enda búinn að vinna við bílavarahluti í fjölda ára og er nú hjá Bíljöfri eftir að Ræsir lagði upp laupana. Ég sendi honum skeyti og spurði um slíka gersemi sem bæklingur fyrir svona bíl er á tungumáli sem ég skil. Ekki stóð á svörum og hann kvaðst eiga einn slíkan í vinnunni sem ég mætti fá.

Í dag renndi ég við hjá Bíljöfri, hitti Jóel og fékk bæklinginn, notaði tækifærið um leið og spurði hvernig ætti að skipta um framljósaperu á svona bíl.
„Ekkert mál, komdu bara inn með bílinn“.
Ég renndi inn með bílinn og einn starfsmaðurinn náði í topplykil og losaði eina langa skrúfu sem lá í gegnum allt ljósastæðið. Þar með losnaði ljósastæðið og eftir það gekk fljótt og vel að skipta um peruna og ég ók í burtu með öll ljós í lagi fyrir sárafáar krónur og þakklæti í huga.

Stundum borgar sig að spyrja ráða fremur en að rífa bílinn í sundur fyrir lítið verk.


0 ummæli:







Skrifa ummæli