Undanfarna daga hefur hver ritsnillingurinn á fætur öðrum bent okkur aumum á þá einföldu staðreynd að Morgunblaðið sé í einkaeigu og að eigendum þess sé alveg í sjálfsvald sett hvern þeir vilja ráða sem ritstjóra. Við sem sögðum upp Mogganum var þetta alveg ljóst, en einnig að fyrr á árinu þurftum við að greiða þrjá milljarða með blaði í einkaeigu úr almannasjóðum, þ.e. banka sem kominn er í eigu samfélagsins.
Þegar ég gerðist áskrifandi að Morgunblaðinu á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar hafði Morgunblaðið breyst verulega. Það var ekki lengur þetta einstrengingslega flokksblað Sjálfstæðisflokksins sem það hafði verið frá því á þriðja áratug aldarinnar, orðið mun hófsamara þótt enn saknaði ég vissulega uppgjörs við fortíðina. Það var samt ástæða til að gerast áskrifandi og við Moggi gamli urðum dús.
Með nýjum eigendum að blaðinu á þessu ári var viðbúið að breytt yrði um áherslur við rekstur blaðsins. Það var þó ekki fyrr en við brottrekstur Ólafs Stephensen frá blaðinu sem ljóst var að breyta átti stefnunni og endurnýja flokksböndin við Sjálfstæðisflokkinn. Með þessu skildu leiðir mínar og Morgunblaðsins. Það gerðist ekki í einu vettvangi, en um leið og tilkynnt var að helsti foringi nýfrjálshyggjunnar yrði ritstjóri, varð þetta öllum ljóst og ég kvaddi Morgunblaðið með söknuði.
Bréfið sem nýju ritstjórarnir sendu fyrrum áskrifendum blaðsins og barst mér í fyrradag, breytti engu um uppsögn mína, en ég er tilbúin að endurnýja áskriftina að nýju um leið og ný og frjálslyndari ritstjórnarstefna verður gerð heyrinkunn með nýjum ritstjórum.
laugardagur, október 03, 2009
3. október 2009 - Enn um Moggann
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 09:35
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli