þriðjudagur, október 27, 2009

27. október 2009 - Einelti!

Kæra lesönd. Ég ætla ekki að halda langan fyrirlestur yfir þér um einelti. Nóg er komið af slíkum fyrirlestrum í dag samt.

Umræðan um einelti er þekkt vandamál í íslenskri umræðu um hin ýmsu dægurmál. Í allan dag hafa útvarps og sjónvarpsstöðvar verið undirlagðar í umræðuna um einelti. Á morgun verður umræðan gleymd. Sama má segja um baráttuna gegn umferðarslysum, baráttuna gegn krabbameini og geðsjúkdómum, einn dag á ári eru allar ljósvakastöðvar sem og dagblöð undirlögð í málefnið og svo ekki söguna meir fyrr en eftir heilt ár ef umræðan verður þá vakin upp, gjarnan í tengslum við einhverja söfnun eða upphaf áróðursherferðar. Áður en dagurinn er allur verða allir búnir að fá nóg af umræðunni og hættir að taka við meiru.

Ég er ekkert á móti umræðunni um einelti. Ég hefi sjálf orðið fyrir slíku. Umræðan er mjög þörf og þarf að heyrast mun oftar og víðar í samfélaginu, en með því að allir fjölmiðlarnir hafa fjallað um málið í dag eru þeir búnir að gera skyldu sína og ekkert heyrist meira fyrr en eftir ár í fyrsta lagi.

Mátti ekki hafa aðeins minna í dag, en eitthvað á morgun og alla hina dagana, kannski ekkert endilega um einelti, heldur um svo mörg mikilvæg málefni sem nauðsynlegt er að hafa ávallt í umræðunni svo að við verðum ávallt þess meðvituð að ýmislegt er að í samfélaginu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli