fimmtudagur, október 08, 2009

8. október 2009 - Ólöf mágkona

Á fimmtudag, var borin til grafar mágkona mín Ólöf Jónsdóttir. Ég er kannski ekki rétta manneskjan til að minnast hennar, enda engin sérstök vinátta á milli okkar auk þess sem ég hefi einungis hitt hana í örfá skipti á síðustu tveimur áratugum, en get samt ekki setið á mér að segja nokkur orð um hana.

Fljótlega eftir að Jón bróðir minn skildi við fyrri eiginkonuna og tók við Ólöfu í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, byrjaði einhverskonar erfiðleikasamband milli fjölskyldu minnar og Ólafar, ekki beinlínis haturssamband, fremur samskipti sem einkenndust af blöndu af vorkunnsemi og fyrirlitningu því Ólöf var ekki eins og fólk er flest. Hún lifði töluvert í sínum eigin ímyndunar- og draumaheimi og öfugt við þann stuðning sem hún þurfti á að halda til að losna úr þessum draumaheimi, gerði fólk gys að henni á laun, draumum hennar og tilfinningum. Ég var ekki mikið öðruvísi en annað fólk, þar á meðal ættingjar mínir, tók þátt í hæðninni á laun og má skammast mín fyrir það í dag.

Ólöf hlýtur að hafa fundið inn á þessa hæðni því smám saman einangruðust Jón og Ólöf frá öðrum ættingjum. Þessi einangrun var gagnkvæm, við forðuðumst þau og þau forðuðust okkur. Það var þó engin ástæða til slíks og samband þeirra við okkur var þolanlegt á áttunda áratugnum og fram á hinn níunda áratugnum en fjaraði að nokkru út þegar nálgaðist aldamótin, þó með nokkrum undantekningum.

Sjálf var ég í Svíþjóð í nokkur ár og missti tengslin, en er ég kom heim aftur 1996 virtist systkinakærleikurinn milli mín og elsta bróður míns hafa fjarað út að mestu, ekki síst eftir að ég hafði farið þá vegferð sem honum og mörgum öðrum var á móti skapi og tilfinningum. Ég vissi ekkert um afstöðu Ólafar á þeim tíma, enda var sambandið ekkert á milli mín og þeirra næstu árin á eftir. Ég hitti þó Ólöfu eitt örlítið augnablik við jarðarför móður minnar árið 2003, en síðan ekki söguna meir fyrr en ég rakst á hana og dóttur þeirra hjóna í verslunarmiðstöð fyrir fáeinum mánuðum. Var hún þá hin hressasta og báru þær mæðgur með sér að enginn kali væri af þeirra hálfu í minn garð, en ég hafði að auki fundið fyrir mildari afstöðu bróður míns í minn garð en mér hafði verið tjáð áður. Ég sá því ekki ástæðu til að erfa neitt þótt ekki yrði sambandið meira en áður við það.

Ólöf varð bráðkvödd á heimili sínu 29. september síðastliðinn. Mig langar til að votta Jóni bróður mínum, börnum þeirra Ómari og Arndísi og barnabörnum samúð mína.


0 ummæli:







Skrifa ummæli