Það var eitthvað rólegt hjá mér á vaktinni og ég greip rúmlega mánaðargamalt DV, enda er ég farin að spara mér áskrift á glænýjum Morgunblöðum, hóf að lesa mér til dægrastyttingar og bar þá niður í grein um sparnað og hvernig ég gæti sparað rúmlega hálfa milljón á ári. Ég varð margs vísari við lestur greinarinnar og brátt vissi ég allt um það hvernig ég gæti sparað nærri fimmtíu þúsund krónur í hverjum mánuði
Til þess að geta sparað þessar fimmtíu þúsund krónur verða meðal annars eftirfarandi forsendur að vera fyrir hendi: Ég sé með dýrustu nettengingu sem völ er á. Borða flatböku í hverri viku og ávalt þá dýrustu sem völ er á. Þamba gos í öll mál. Flýg norður til Akureyrar annan hvern mánuð. Drekk dýrasta öl sem völ er á í Ríkinu og reyki dýrustu sígaretturnar. Að sjálfsögðu fer ég í bíó í hverri viku, stunda myndbandsleigurnar af miklum móð, keyri í vinnuna og sendi SMS eins og fingrafimasti unglingur.
Nú er bara að byrja á að reykja, drekka dýrt öl og gos af miklum móð, éta dýrar flatbökur í hverri viku, skreppa norður á Akureyri í bíó og leigja mér myndir, margfalda niðurhalið í nettengingunni og æfa fingrasetninguna á gemsann. Að sjálfsögðu hætti ég að ganga í vinnuna og kaupi mér heimabíókerfi af dýrustu og bestu sort.
Þegar ég hefi náð þessum markmiðum öllum, get ég farið að spara hálfa milljón á ári. Þá verður gaman að lifa, eða hvað?
mánudagur, október 26, 2009
26. október 2009 - Sparnaður?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:56
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli