laugardagur, október 03, 2009

3. október 2009 - Sýruárás?

Það fór um mig þegar ég sótti Fréttablaðið niður í póstkassa í morgun og sá fyrirsögn þess efnis að Rannveig Rist hefði orðið fyrir sýruárás í andlitið. Fyrst datt mér í hug að einhver hefði setið fyrir henni og slett á hana sýru, en við lestur fréttarinnar reyndist hún hafa fengið sýrudropa í andlitið er hún opnaði bílinn sinn fyrir tveimur mánuðum, atburður sem vitað var um fyrir löngu.

Einn sýrudropi er nógu alvarlegt atvik samt, þótt ekki sé verið að dramatísera hlutina á þann hátt sem Fréttablaðið gerði sig sekt um með fyrirsögninni. Þess þurfti ekki. Sömuleiðis yrði seint hægt að ákæra skemmdarverkafólkið fyrir sýruárás á Rannveigu nema auðvitað að ákæruvaldið taki að sér að leita hefnda fyrir atvikið.

Þetta breytir auðvitað engu um að þau skemmdarverk sem framin hafa verið á húsum og bílum starfsfólks orkufyrirtækja og verksmiðja sem og á eignum útrásarvíkinganna er engum til góðs. Í flestum eða öllum tilfellum lendir tjónið á saklausum almenningi sem þarf að greiða fyrir það með hækkuðum tryggingaiðgjöldum. Að auki veldur það dýpri gjá á milli auðmanna og yfirmanna stórfyrirtækja annarsvegar og almennings hinsvegar en við höfum séð áður og sú hætta getur skapast að farið verði að flokka fólk í svæði eftir efnahag á sama hátt og sjá má í sumum ríkjum Rómönsku-Ameríku og víðar. Því er betur heima setið en af stað farið.

Lögreglan hlýtur að vita hvaða fólk stendur að þessum skemmdarverkum, svo lík eru þessi skemmdarverk hverju öðru og fáir aðilar sem eru líklegir til slíkra ódæðisverka. Því verður að finna skemmdarverkafólkinu aðstöðu hið bráðasta, við smíði á bílnúmeraplötum og öðru slíku ef engu er hægt að ná af þeim upp í þær skemmdir sem þeir hafa unnið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli