Mér bárust til heyrna áðan að hinn nýi ritstjóri Morgunblaðsins væri farinn að úthúða þeim bloggskríbentum sem ekki eru á hans skoðun, þó að undanskildum Ómari Ragnarssyni og fáeinum öðrum. Ekki veit ég neitt um það. Morgunblaðið hefur ekki borist inn á heimili mitt í tvo daga og ætla ég að það komi ekki hingað að nýju um sinn. Þá sé ég enga ástæðu til að elta ólar við Morgunblaðsvefinn né Moggabloggið, en ég hefi sagt skilið við Moggabloggið fyrir nokkru síðan og held áfram að skrifa mín sóðablogg á blogspot þar sem ritstjórnarstefna Morgunblaðsins nær ekki til mín.
Það má vel vera að ritstjóri Morgunblaðsins hafi ekki verið að beina orðum sínum að mér sem mér þykir þó líklegt, en hann hafi frekar verið að kalla til sín hina nýju skoðanabræður sína og systur, hina nýju Sjálfstæðismenn sem þykjast vera í stjórn eru í reynd í stjórnarandstöðu. Hvað veit ég? Ég er hætt að lesa Morgunblaðið að sinni og reyndar er mér hjartanlega sama hverja skoðun ritstjórar Morgunblaðsins hafa á bloggskrifum eða öðrum landsins málefnum.
Rétt eins og síðustu fjögur árin, þá er ég enn með mitt grunnblogg á gamla staðnum, þ.e. http://velstyran.blogspot.com þar sem ég skrifa flesta daga, þó ekki alla. Þetta er ákaflega ljúft bloggsvæði, fæ fáar heimsóknir þangað og því blessunarlega laus við skítkast frá öfgasinnuðum nýfrjálshyggjusinnum og trúvillingum.
Það er hið besta mál.
mánudagur, október 05, 2009
5. október 2009 - Um ónefndan ritstjóra og Moggablogg
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:16
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli