miðvikudagur, október 07, 2009

7. október 2009 - Guð blessi hrunið?

Í gærkvöldi var sýndur fyrsti þátturinn af fjórum í sjónvarpinu um efnahagshrunið á Íslandi og fannst mér lítið til koma. Kannski er það vegna þess að hrunið situr enn of ferskt í mér til að ég geti horft á það úr fjarlægð tíma eða rúms. Fyrir bragðið virkaði það eins og endurtekinn fréttaauki eða kastljósþáttur.

Í gærkvöldi var einnig sýnd kvikmyndin Guð blessi Ísland í bíó. Ekki sá ég myndina, en að sögn þeirra sem ég þekki og sáu hana, var hún ekki peninganna virði. Án þess að ég geti lagt mat á myndina sjálf á meðan ég hefi ekki séð hana, þá grunar mig að ástæðan sé hin sama og með sjónvarpsmyndina, of skammt liðið frá hruninu og of margir þættir þess enn óupplýstir.

Kannski er ekki hægt að gera góða fræðslumynd um hrunið í dag. Við bíðum enn eftir skýrslu rannsóknarnefndarinnar undir stjórn Páls Hreinssonar um hrunið og grunar mig að þá muni mörg atriði líta dagsins ljós sem í dag eru mönnum hulin. Þá ganga útrásarvíkingarnir enn lausir og halda áfram að safna auði eftir gífurlegar afskriftir bankanna á kostnað okkar vesælla íbúa þessa lands. Fyrir bragðið er ekki hægt að gera raunhæfa kvikmynd um atburði liðins hrunárs þar sem endirinn er enn óljós, en verður örugglega erfiður mörgum, kvikmynd án enda.

Það er ekki langt síðan gerð var sjónvarpsmynd um Enron hneykslið þótt átta ár séu liðin frá því Enron fór á hausinn. Það tók nokkur ár að finna lausu endana og síðan dæma sökudólgana til réttlátrar refsingar.

Mig grunar að uppgjör Íslandshneykslisins muni taka að minnsta kosti jafnlangan tíma ef tekst nokkru sinni að kafa til botns í því. Þá fyrst verður hægt að gera þokkalega kvikmynd um hrunið, orsakir þess og afleiðingar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli