föstudagur, október 30, 2009

30. október 2009 - Enn af rjúpnaveiðum

Það var runninn upp sá frægi dagur 15. október 1975. Um nóttina hafði fiskveiðilögsagan verið færð út í 200 sjómílur um leið og rjúpnaveiðitímabilið hófst. Einn bekkjarfélaginn sem átti heima fyrir austan fjall kom við á Hellisheiðinni á leið í skólann um morguninn og náði að veiða eina rjúpu og kom með hana sigrihrósandi í skólann.

Okkur fannst ómögulegt annað en að nota tækifærið og gera smásprell, ekki síst vegna andstöðu dansks efnafræðikennara okkar við útfærsluna í 200 mílur, en karlinn var (og er) hinn mesti mannvinur og dýravinur af trúarsannfæringu, en hann var virkur í trúarsamfélagi Votta Jehóva og ritstjóri Varðturnsins ef mig misminnir ekki, þoldi ekki blóð og hugsanlega grænmetisæta.

Til að hrella karlinn aðeins vegna andstöðu hans, límdi ég miða framan á hræið hvar á stóð, ÉG VAR Á MÓTI 200 MÍLUNUM, svo settum við snöru um hálsinn og hengdum hræið síðan upp í dyrnar á kennslustofunni og lokuðum. Þegar kennarinn kom í tíma, opnaði hann dyrnar og við honum blasti hræið. Hann smeygði sér framhjá hræinu og gaf okkur ágæta lexíu um dýravernd en lét síðan sem ekkert væri það sem eftir var tímans.

Vesalings rjúpan fékk að hanga í dyrunum til hádegis, en í matartímanum hvarf hún skyndilega og enginn vissi hvað af henni hafði orðið, ekki fyrr en daginn eftir að lítil frétt birtist á blaðsíðu 3 í dagblaðinu Vísi um stuðning Vélskólanema við útfærsluna í 200 mílur með mynd af Hallgrími Guðfinnssyni (sem eitt sinn gekk undir viðurnefninu Strandagraður) með rjúpuna hangandi í snörunni. Við gengum á Hallgrím og kröfðumst skýringa á hvarfi rjúpunnar og í einlægni sinni svaraði hann:

„Ég var bara svangur og sá þennan dýrindis mat sem beið eftir mér í dyrunum. Þegar ég sótti matinn, kom ljósmyndarinn og smellti mynd af mér með rjúpuna og ekki gat ég farið að segja nei við einni myndatöku. En rjúpan, jú hún smakkaðist ágætlega.“

P.s. Til að skoða myndina hér að neðan betur er best að klikka á hana.


0 ummæli:







Skrifa ummæli