Flestir vinnufélagar mínir eru að einu leyti verri en aðrir starfsmenn í fyrirtækinu. Við vinnum á bakvið lokaðar dyr eða ein á ferð og því fátt um smitleiðir að okkur. Þetta hefur m.a. komið fram í því að færri veikindadagar eru að meðaltali á hvern starfsmann en gengur og gerist, hvort heldur miðað er við aðra starfsmenn eða þjóðfélagið allt að sjómönnum undanskildum, en eins og íslenskum almenningi ætti að vera kunnugt, eru íslenskir sjómenn harðgerari, heilsubetri og jákvæðari en aðrir Íslendingar. Það er eðlilegt því lítið þýðir að kveinka sér yfir kvefi eða flensu þegar trollið er fullt af fiski.
Öll hlutum við eldskírn okkar í vinnu á sjó og skítugum smiðjum. Því bítur fátt á okkur og ef einhver á það til að fá hjartaáfall, nýrnakast eða ótímabært andlát, er ávallt einhver aukavinnuhungraður vinnufélaginn tilbúinn að hlaupa í skarðið uns sá látni mætir aftur til vinnu hress og endurnærður eftir alltof stutt veikindafrí. Ekki bætir úr að engum dettur til hugar að víkja af vaktinni eða ljúga til um veikindi nema bráður bani sé yfirvofandi.
Þegar fregnir bárust af yfirvofandi svínapest horfðu menn bjartsýnir fram á veginn og mættu á vaktina með dollaraglampa í augunum og sáu í hillingum aukavaktirnar klingja í kassanum á meðan vinnufélagarnir lágu á gjörgæslu með dælutruflanir og vandræði í skolloftsgöngunum, en enn hefur ekkert skeð ef frá eru taldar martraðir á frívaktinni um stórubólu og svartadauða. Því er fólkið farið að örvænta um skjótfenginn flensugróða til nota í jólainnkaupin.
Ætli flensugræðgin sé hluti af græðgisvæðingunni?
fimmtudagur, október 29, 2009
29. október 2009 - Flensugræðgi!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 16:57
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli