Fyrir tæpu ári var tekin í notkun ný heilsugæslustöð hér í hverfinu, reyndar svo nærri heimili mínu að ég er einungis tvær mínútur að rölta í apótekið sem er í sama húsi. Þetta er auðvitað allt gott og blessað og ekki er amalegt að geta lagt bínum sínum við innganginn, svo nærri að hægt er að komast inn í húsið úr bílnum án þess að blotna þótt hellirigning sé. Ekki er það til að gera málin verri að göngutíminn minn í vinnuna styttist um hálfa mínútu með tilkomu nýju heilsugæslustöðvarinnar, en þá verð ég líka að ganga á grasinu.
Af einhverjum ástæðum virðast allar aðkomuleiðir við opinberar byggingar miðast við aðkomu á bíl eða úr lofti. Allt er þetta æðislega flott á loftmyndum hvort heldur er átt við heilsugæslustöðina eða opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna, Orkuveituna. Allir gangstígar eru þráðbeinir og hægt að gera reglustiku eftir þeim, en þegar gengið er að staðnum blasir önnur mynd við Við heilsugæslustöðina liggja allir göngustígar út í umferðina á götunni, en hinum megin götunnar er venjulega gras því göngustígurinn hinum megin er venjulega allt annars staðar.
Ég hefi aldrei séð nokkra manneskju ganga eins og spýtukarl eftir hinum hönnuðu göngustígum við heilsugæslustöðina. Hinsvegar er grasið niðurtroðið þar sem fólkið styttir sér leið, t.d. ef farið er frá heilsugæslustöðinni að gangbrautinni við hringtorgið við hornið á heilsugæslustöðinni, en þar er engin hönnuð leið. Sama er að segja um opinbera fyrirtækið hinum megin við götuna þar sem gleymdist að gera ráð fyrir gangandi vegfarendum, enda sú bygging hönnuð með árið 2007 að leiðarljósi.
Hvernig væri að kenna þessum svokölluðu skipulagsfræðingum að hugsa í stað þess að láta þá vinna verkin sín með reglustriku eða gera þá að forystumönnum ónefndra grínstjórnmálaflokka?
fimmtudagur, október 15, 2009
15. október 2009 - Um skipulag nýrra bygginga
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:56
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli