föstudagur, október 09, 2009

9. október 2009 - Friðarverðlaun Nobels

Friðarverðlaun Nobels voru stofnuð í ákaflega göfugum tilgangi, til að stuðla að friði manna á meðal og veita þeim viðurkenningu sem skarað hafa framúr á því sviði. Allnokkrir friðarverðlaunahafa hafa fengið þessa viðurkenningu fyrir fórnfúst lífsstarf þar sem þeir fórnuðu öllu fyrir vopnlausa baráttu eða mannkærleika. Má þar nefna Albert Schweitzer, Martin Luther King, Dalai Lama, Móður Teresu, Desmond Tutu og Aung San Suu Kyi. Fleiri mætti efalaust nefna sem hafa unnið fyrir verðlaununum með lífsstarfi sínu sem eru minna þekktir í dag auk þess sem ýmis samtök sem stuðla að friði og bættu mannlífi í heiminum hafa fengið verðlaunin, sbr Amnesty International.

Þrátt fyrir þennan lista hefur hópur einvalda og stríðsherra fengið verðlaunin, menn sem tóku við verðlaununum eins og blóðugir upp að öxlum í sláturtíðinni, menn á borð við Menahem Begin, Anwar Sadat, Henry Kissinger, Yasser Arafat, Shimon Peres og Le Duc Tho, en sá síðastnefndi hafnaði þeim góðu heilli. Þessir menn hafa hver fyrir sig verið sem hneisa fyrir friðarverðlaun Nobels þótt vafalaust megi finna eitt og annað jákvætt í fari þeirra t.d. að þeir hafi verið góðir við aldraða móður sína og farið reglulega út að ganga með hundinn sinn.

Enn aðrir hafa fengið verðlaunin í framhaldi af tilviljanakenndri atburðarás, menn eins og Mikhail Gorbachev, Jimmy Carter og Al Gore, allt menn sem sneru við blaðinu á miðri vegfarð og hófu að stuðla að friði í stað styrjalda.

Nú hefur Barack Obama fengið friðarverðlaun Nobels. Ekki veit ég fyrir hvað. Hann er að vísu sem friðardúfa í samanburði við stríðsglæpamanninn forvera sinn í embætti sem mig minnir að hafa fengið fleiri tilnefningar til verðlaunanna án árangurs, en hann þykir samt álíka mikill friðarsinni og Björn Bjarnason svo nefnd séu dæmi héðan af Klakaskerinu. Nægir þar að nefna stríðin í Afganistan og Írak sem eru að vísu arfur eftir forverann illræmda, en sem Obama hefur viðhaldið á þeim fáu mánuðum síðan hann tók við embætti.

Með síðustu úthlutun Nobelsverðlauna held ég að óhætt sé að endurnýja norsku Nobelsakademíuna að öllu leyti, en til vara að leggja hana niður þar til friðarsinnar fást í akademíuna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli