föstudagur, október 23, 2009

23. október 2009 - Glápsýning í Smáralind

Seint um haustið 1966 var ég á ferð í strætisvagni fullum af fólki þegar einhver kallaði upp fyrir sig: Sjáið, þarna er Sigríður Ragna! Allt fólkið í vagninum sneri sér við og glápti á stúlkuna sem hafði verið ráðin sem þula hjá hinni nýju stofnun sjónvarpinu. Ekki veit ég hvort Sigríður varð þessa vör að heill strætisvagn með innihaldi glápti á hana, en einhvernveginn þótti mér þessi uppákoma niðurlægjandi fyrir fólkið í vagninum.

Þegar ég kom til Íslands sumarið 1996 var stara eitthvað farin að minnka hjá Íslendingum, en samt þótti mér það virkilega óþægilegt þegar fólk fékk störu og glápti á mig eins og naut á nývirki. Sem betur fer kunnu flestir sig alveg, en ein og ein manneskja missti sig gjörsamlega í glápinu, í einhverjum tilfellum svo illa að ég sá ástæðu til að gera arthugasemd við glápið. Smám saman vandist þetta og eftir einhver ár áttaði fólk sig á því að ég var og er bara venjuleg manneskja.

Glápið fékk á sig nýja mynd á dögunum þegar útgefendur heimsmetabókar Guinnes fengu hávaxnasta mann í heimi til að koma til landsins og vera mörlandanum til sýnis í einn dag eða tvo. Í þetta sinn gerði Rannveig Traustadóttir alvarlegar athugasemdir við þessa sýningu og er það vel. Að minnsta kosti sé ég enga ástæðu til að fara í Smáralindina til að skoða manninn.

Á tuttugustu og fyrstu öldinni eiga sirkussýningar af þessu tagi að vera aflagðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli