þriðjudagur, október 06, 2009

6, október 2009 - Berin eru súr



Fyrir nokkrum árum síðan var ég á þriggja daga fundi í Tórínó á Ítalíu og vildi auðvitað kynna mér eitthvað meira af menningu borgarinnar en fundardagskrána og fundargestina sem ég þekkti alla ágætlega frá fyrri fundum. Ég spurði því hvar líkkklæði Krists væru niðurkomin í borginni og var mér þá tjáð að þau væru nánast í næsta húsi, í Jóhannesardómkirkjunni við enda götunnar þar sem fundurinn var haldinn, Via della Basilica.

Úr því að ég var komin alla þessa leið, fannst mér tilvalið að kíkja á djásnið þegar fundinum væri lokið, en þegar inn í kirkjuna var komið reyndust líkklæðin vandlega læst ofan í kassa á bak við eldtraustan glervegg og lítið spennandi þótt kirkjan sjálf væri glæsileg að sjá að innanverðu og sögurnar af Don Camilló þyrluðust upp í minningunni í þessari bílaborg þeirra Ítalanna.

Rétt eins og refurinn sem fannst berin súr þegar hann náði þeim ekki, sitja líkklæðin ekki sterkt í minningunni nokkrum árum síðar, ekki síst eftir að ég las pistil Illuga Jökulssonar um fölsuð líkklæðin sem hann hefur eftir Moggasnepli, en það vita nú allir hve mikið er að marka Moggasnepil á þessum síðustu og verstu tímum og því vissara að hafa einhvern þeim vitrari til að sannreyna sögurnar.

http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2009/10/6/ruglid-um-likklaedid-i-torino/

http://public.fotki.com/annakk/ferir-og-vinna/43-torino---112006/


0 ummæli:







Skrifa ummæli