Hommar hafa aldrei verið verið vinsælir sem hermenn. Það er eðlilegt, því tilfinninganæmni þeirra er hindrun í vegi fyrir því að þeir geti orðið góðir morðingjar, þá sérstaklega ef þeir þurfa að berjast maður við mann eins og hefur átt sér stað í landhernaði. Í sjóhernaði er ekkert um að menn berist á banaspjótum með byssustingjum og handsprengjum og því þykja hommar miklu hæfari í sjóhernaði en í landhernaði þótt þeir hafi einnig verið bannfærðir í bandaríska sjóhernum því eitt skal yfir alla ganga.
Þrátt fyrir bannið, hefur bandaríski sjóherinn gert sér grein fyrir hæfileikum margra homma í sjóhernaði. Því fengu þeir hýra söngkvintettinn Village People til að syngja hvatningarsöng fyrir sjóherinn í framhaldi af laginu YMCA á áttunda áratugnum, þ.e. lagið „In the Navy“, enda töldust hommar öðrum betri viðureignar í löngum útiverum þar sem saman voru komnir hundruðir ungra karlmanna í einangrun í þröngum vistarverum.
Í fyrradag flutti Obama Bandaríkjaforseti ræðu á þingi bandarískra homma þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði að leggja fram lagafrumvarp um bætt réttindi LGBT einstaklinga í hernum. (LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender).
Sjálf hefi ég aldrei getað skilið þetta bann, þó með tilliti til formálans. Ég vil ekkert láta drepa mig og því er mér slétt sama hvort hermaðurinn sem er ráðinn til verksins er hommi eður ei. Helst vil ég að hann finni sér aðra og heiðarlegri atvinnu en þá að drepa fólk eða verða drepinn. Því sé ég enga ástæðu til að fagna þessu frumkvæði Bandaríkjaforseta sem er í eðli sínu andstætt þeim verðlaunum sem honum hlotnaðist síðastliðinn föstudag þótt vissulega eigi hommar að hafa sama rétt og aðrir á öllum sviðum mannlífsins, þá einnig til vondra verka.
Svo mælist ég til að Ríkissjónvarpið á Íslandi taki ríkisstjórnina og Morgunblaðið sér til fyrirmyndar og hætti að kalla transgender einstaklinga fyrir kynvillinga eða kynskiptinga eins og þeir gerðu í fréttatímanum á sunnudagskvöldið.
mánudagur, október 12, 2009
12. október 2009 - Amerískt lagafrumvarp um réttindi samkynhneigðra
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:10
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli