sunnudagur, október 04, 2009

4. október 2009 - Gríðarlegur stjórnarandstæðingur

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir stjórnarandstæðingur kom fram í Silfri Egils í dag þar sem hún bað Ögmundi Jónassyni stjórnarandstæðing griða og taldi gríðarlega mikilvægt að setja hann aftur inn í ríkisstjórn sem hann er í reynd á móti (ég taldi ekki hveru oft Guðfríður Lilja notaði orðið gríðarlega til að leggja áherslu á orð sín en mér vitrari maður sem nennti að horfa með athygli á þáttinn taldi 18 skipti þar sem hún notaði orðið gríðarlega). Guðfríður Lilja og Ögmundur eru ekki ein um andstöðuna gegn ríkisstjórninni innan Vinstri grænna. Þar má nefna Jón Bjarnason, Ásmund Einar Daðason og hugsanlega einnig Atla Gíslason, Það má eiginlega segja að Vinstri hreyfingin-grænt framboð sé hópur einstaklingshyggjusinna og því þar virðast jafnmargir þingflokkar og þingmenn þess eru margir. Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt að vinna með þingflokki þar sem hver höndin er upp á móti annarri í flestum málum.

Hafa ber í huga að Framsókn er á móti Evrópusambandinu, þrátt fyrir samþykkt á síðasta landsfundi, Sjálfstæðisflokkur á móti sem og Vinstri grænir. Þegar haft er í huga að margir þingmenn Vinstri grænna og (Borgara)Hreyfingar eru einnig á móti möguleikum á því að koma á stöðugleika í fjármálum ríkisins með nauðasamningunum við Breta og Hollendinga, er eðlilegt að Vinstri grænir slíti stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna og gangi til liðs við hægri öflin sem komu þjóðinni á vonarvöl. Þar eiga þeir heima miðað við hegðun þeirra að undanförnu.

Slíkt hlýtur að verða fagnaðarefni fyrir íhaldsmenn sem í þrælsótta sínum eru tilbúnir að koma íhaldi og Framsókn aftur til valda sama hvað það kostar, svo að þeir geti endanlega komið því litla sem enn er uppistandandi hjá íslenskri þjóð á hausinn og tryggt að þjóðin komist aldrei á lappir á ný.


0 ummæli:Skrifa ummæli