föstudagur, október 30, 2009

30. október 2009 - Rjúpnaveiðitímabilið

Í tilefni af því að nú fer rjúpnaveiðitímabilið af stað, rjúpum og okkur aðdáendum þeirra til sárrar armæðu, rifjaði ég upp gamalt atvik frá skólaárunum.

Endur fyrir löngu voru algengir þýskir eðalvagnar á götunum frá þýsku Ford verksmiðjunum sem báru nafnið Taunus (framborið Tánus) og höfðu þeir tegundarnúmer í samræmi við vélarstærð, Tánus 12M, Tánus 15M og Tánus 20M.

Einn skólafélaginn fór ásamt fleirum til fjalla með alvæpni í hönd. Þeir gengu lengi um Hellisheiðina en urðu ekki varir. Eftir að hafa gengið daglangt án neins árangurs annars en góðrar líkamshreyfingar, sneru þeir til baka að bílnum. Þar sem félagi minn steig inn í bílinn hljóp skot úr haglabyssunni og af fór önnur stóratáin. Eftir þetta var vinurinn aldrei kallaður annað en Tánus 9M meðal bekkjarfélaganna.

Svo eru menn að tala um einelti í dag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli