fimmtudagur, apríl 12, 2012

13. apríl 2012 - Að flytja út rafmagn

Oft hefi ég verið sammála Landsvirkjun. Sumum virkjana þeirra hefi ég fagnað og talið af hinu góða auk þess sem þeir hafa lagt sig fram um að bæta fyrir umhverfisspjöllin sem frekast er kostur og má víða sjá þess merki á hálendinu. Nú ætla þeir að vinna að útflutningi á rafmagni með neðansjávarstrengjum, væntanlega til Færeyja, Shetlandseyja, Orkneyja og Skotlands og komast þannig inn á Evrópumarkaðinn. Hugmyndin lítur vel út í Excel skjali, stórgróði fyrir Landsvirkjun og hægt að virkja hverja einustu smásprænu á landinu sem hefur virkjanaleyfi. Þannig er hægt að selja hvert einasta megavatt sem ekki nýtist hér heima háu verði til rafmagnsþyrstra Evrópubúa. Aukinheldur jafnar tenging við Evrópu út sveiflurnar hér heima og hættan á raðútslætti minnkar ef til dæmis álver eða virkjun slær skyndilega út. Á sama hátt má búast við að ef raðútsláttur verður eins og átti sér stað á Íslandi 10. janúar s.l. muni taka mun skemmri tíma að koma kerfinu í eðlilegt horf að nýju.

Allt lítur þetta vel út og eigum við ekki að byrja að fagna stórhuga hugmyndum?

Kannski ekki.

Hverjir eru ókostirnir við að tengjast Evrópu með streng? Eitt má telja öruggt. Daginn sem kapallinn til Skotlands verður tekinn í notkun mun raforkuverðið á Íslandi hækka upp í það sem er í Skotlandi, kannski enn hærra. Viljum við borga hærra raforkuverð en við borgum í dag? Ég held ekki. Í dag er til meira umframrafmagn á Íslandi en við höfum þörf fyrir. Samt er verðið tiltölulega hátt miðað við það sem það gæti verið miðað við að heildsölurafmagn sé selt á markaðsverði innanlands. Samt á að halda áfram að byggja fleiri virkjanir án þess að búið sé að selja raforkuna til einhvers stórnotanda og leggja rafmagnssnúru til Skotlands svo Skotarnir og síðan einnig Evrópa fái notið þessara fáu megavatta sem við eigum umfram notkun.

Ef kapallinn verður að veruleika mun engin frekari stóriðja verða byggð á Íslandi. Íslendingar munu einungis fá vinnu við að byggja nýjar virkjanir en sárafáa menn þarf til að reka virkjanir og það mun því ekki skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi. Sú stóriðja sem þegar er til í landinu mun smám saman flytjast burtu og íbúunum mun fækka.

Þetta mun vafalaust bæta fjárhaginn hjá Landsvirkjun og Orkuveitunni, en ekki mörgum öðrum og alls ekki venjulegum íbúum þessa lands


0 ummæli:







Skrifa ummæli