mánudagur, apríl 02, 2012

2. apríl 2012 – Ísland árið 2012, ofbeldi gagnvart transfólki

Ég man það eins og að það hefði gerst í gær. Ég hafði farið á fund hjá sænskum transhópi sem haldinn var á Södermalm í Stokkhólmi haustið 1989, en er ég fór þaðan og kom á brautarpall neðanjarðarlestarinnar kom ég þar að sem nokkrir pörupiltar voru að berja á einni transkonunni sem var þarna í sínu fínasta pússi að bíða eftir lestinni. Sem betur fer kom lögreglan að í sömu mund og ég svo ég slapp við að hjálpa vinkonu minni. Á næstu árum kynntist ég fjölmörgum tilvikum þar sem transfólk varð fyrir ofbeldi og sjálf varð ég formaður samtakanna Benjamin í Svíþjóð eftir að hafa mótmælt aðgerðarleysi stjórnar félagsins eftir skipulagt ofbeldi í garð transfólks í Svíþjóð árin 1992-1993.

Ég varð stöku sinnum fyrir ofbeldi á þessum árum, einungis einu sinni líkamlegu ofbeldi en nokkrum sinnum andlegu ofbeldi. En svo flutti ég til Íslands árið 1996 eftir að hafa gengist í gegnum leiðréttingu á kyni árinu fyrr. Fyrstu árin á Íslandi varð ég oft fyrir ofbeldi, þó ávallt vægu. Fólk átti það til að missa úr ölglasinu sínu yfir mig ef ég snéri mér undan og nokkrum sinnum varð ég fyrir hrindingum auk þess sem ég varð oft fyrir háði og spotti af hálfu ókunnugs fólks sem þekkti mig úr fjölmiðlum og ekki má gleyma ítrekuðu símaati þessi ár. Ég fann þó hvernig smám saman dró úr ofbeldinu gagnvart mér eftir aldamótin 2000 og í dag tel ég að ég geti gengið nokkuð óhult um götur Reykjavíkur.

Um árið 2006 frétti ég af grófu líkamlegu ofbeldi gagnvart transkonu á Íslandi þar sem árásarmanninum var hampað sem hálfgerðri hetju í ónefndu tímariti. Kvartað var til siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna þessa en viðbrögðin urðu engin né heldur viðbrögð lögreglu. Eftir þetta fréttist ekki af neinu ofbeldi í garð transfólks og ég var farin að halda að transfólk á Íslandi væri orðið óhult eftir nokkur ár af frjálslyndi í garð hinsegin fólks. Vissulega varð ég vör við einstaklinga sem töldu sig yfir transmanneskjur hafna, en einhverjir þeirra áttu það sameiginlegt að vera í skápnum eða þá með mjög ofbeldisfullar skoðanir sem þykja ekki við hæfi í nútíma lýðræði.

Árið 2012, nánar til tekið í byrjun apríl þurfti transstrákur á Íslandi að fara á salernið á skemmtistað og var laminn í klessu. Þetta var þá allt frjálsræðið!

http://kalldoro.wordpress.com/2012/04/01/ofbeldi-i-gard-transfolks-a-islandi/

Það tókst ekki að koma inn ákvæði vegna kynvitundar í nýja stjórnarskrá Íslands. Við sem höfum starfað í nefnd um réttarstöðu transfólks höfum lagt til að réttarstaða transfólks verði einnig tryggð í hegningarlögunum nr 19/1940, en hveru lengi þurfum við að bíða uns við fáum mannréttindi á borð við annað fólk á Íslandi. Við höfum það ekki í dag! Þessi staða transfólks er Íslandi til skammar.

Ég frétti af þessu grófa ofbeldi einungis klukkustundum eftir að ég hafði hælt mér og Íslendingum almennt fyrir frjálslyndi í garð transfólks við fólk erlendis. Því miður neyðist ég til að draga orð mín til baka.   


0 ummæli:







Skrifa ummæli