fimmtudagur, apríl 05, 2012

5. apríl 2012 - Um leiki og vinnu barna

Ég komst í bráðskemmtilega grein á netinu um leiki barna á Bíldudal á árunum 1970 – 1980 og vafasöm nostalgían fór í gang.

http://www.arnfirdingur.is/index.php/menning-og-saga/adhsent-efni/1079-leikir-og-daegradvoel-barna-a-bildudal-um-1970-1980

Það er kannski ekki alveg mitt að tjá mig mikið um leiki barna á Bíldudal á þessum árum, enda alin upp fyrir sunnan og kom ekki til Bíldudals í fyrsta sinn fyrr en ég fór á vertíð í janúar 1968, þá nýlega orðin sextán ára á Pétur Thorsteinsson BA-12. Þar kynntist ég því hvernig börn „léku sér“ fyrir 1970.

Þar sem við vorum að búa bátinn til veiða átti ég erindi upp í saltfiskverkun og sá þá hvar lítill strákur stóð í saltmokstri. Hann var í gúmmístígvélum eins og títt var og er um litla drengi, en einhver fullorðinn hafði límt á þau upphækkun svo þau nýttust sem klofstígvél og drengurinn virtist alsæll með vinnuna. Ég undraðist þetta og spurði drenginn af hverju hann væri ekki í skólanum eins og hinir krakkarnir og það stóð ekki á svörum:
„Ég er ekki nógu gamall.“
„Ha, ekki nógu gamall til að fara í skóla en samt að vinna? Hvað ertu gamall?“
„Ég er sex ára.“

Var nokkur að tala um vinnuþrælkun barna í Asíu?


(Þess má geta að skólaskyldan hófst við sjö ára aldur á þessum árum. Myndin af Pétri Thorsteinssyni er fengin af síðu Emils Páls http://www.epj.is/ )


0 ummæli:







Skrifa ummæli