þriðjudagur, apríl 03, 2012

3. apríl 2012 - Sambandsleysi við netheima og hina líka


Stundum getur borgað sig að kvarta af fyllstu kurteisi Ég gerði það á þriðjudagsmorguninn og sendi meðfylgjandi tölvupóst til Símans:

Kæri Sími.

Það er leitt að þú skulir yfirgefa mig eftir öll þessi ár sem við höfum verið saman. Við hófum sambúðina á netinu í október 1998 en áður höfðum við verið í símasambandi um tíma. Sambúðin gekk vel fyrstu árin. Þú leystir hratt og vel úr málum sem áður stóðu í Margmiðlun og ég var ánægð. Þau fáu vandamál sem komu upp voru leyst hratt og vel og ég hrósaði þér á hvert reipi fyrir fljóta, góða og ódýra þjónustu. Vissulega komu upp erfiðleikar eins og í öllum góðum samböndum en við stóðum saman í gegnum gamaldags símasamband, ISDN og síðar ADSL, bæði beintengt og í gegnum router og netkort.

Haustið 2009 hringdi fulltrúi þinn og bauð mér að tengjast Sjónvarpi Símans. Eftir nokkurra mánaða umhugsun samþykkti ég boðið, boraði fyrir kapli í gegnum allar innréttingar og lagði streng frá routernum í gegnum borðstofu og eldhús, inn í stofu og að sjónvarpinu. Ég þóttist hafa himinn höndum tekið þegar ég fékk afruglara og gat séð sænskt sjónvarp án þess að flytja aftur til Svíþjóðar og ekki kvörtuðu kettirnir á heimilinu að geta séð góðar teiknimyndir.

En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Í ársbyrjun 2012 veitti ég því athygli að þú varst farinn að verða mér afhuga. Ég kom heim eftir erfiðan vinnudag og það var ekkert sjónvarp nema gamla gufan og ekkert internet svo ég gæti spjallað við vinina á Facebook og ég þurfti að nota gamla símatækið til að tala við fólk. Næstu dagana var sambandið að koma og fara og ég kvartaði og kvartaði. Í byrjun febrúar var sambandið úti í fleiri daga og ég kvartaði. Ég er heppin að vera enn með pung frá þér þótt minn gamli sé löngu farinn öllum til guðsblessunar. Það komu tveir menn frá þér, G. og annar til og mældu og prófuðu og kváðu síðan uppúr með að bilunin væri hjá ætluðu viðhaldi þínu, Mílu. Eftir nokkurra daga sambandsleysi komstu aftur til mín seint að kvöldi mánudags og varst inni um tíma. Þegar leið að lokum febrúar fórstu að verða mér afhuga að nýju og fórst að vera úti heilu næturnar og aftur kvartaði ég með hjálp pungsins góða.

Aftur kom G. og mældi og fann ekkert. Sambandið hélt áfram að vera slitrótt eða oftast ekkert og enn kom G. og skipti um router. Það dugði í sólarhring og þá fór allt á sömu leið og ég hélt áfram að vera sambandslaus við umheiminn og löngu hætt að gera tilraunir til að horfa á Sjónvarp Símans. Ég hélt áfram að kvarta yfir áhugaleysi þínu gagnvart mér því ekki komst sambandið á. Mér var bent á að skipta um router og ég fór niður í Ármúla og fékk þriðja routerinn og setti hann í samband. Síðan þá hefi ég verið símasambandslaus auk þess að vera án internets eða Sjónvarps Símans. Enn kvartaði ég í síðustu viku og þá var mér bent á að ég þyrfti að fá mér ljósnet. Ég sagði já ef það kæmi með hraði og síðan hefur ekkert skeð. Þú ert enn ekki kominn til mín.
Ég fer að halda að þú  sért kominn með nýja kærustu. Heitir hún nokkuð Míla?

Ég ætla að gera þér tilboð. Þú kemur heim í dag og tengist mér að nýju og ég mun hætta að kvarta nema þá helst yfir reikningunum enda er ég ekkert sátt við að borga mörg þúsund krónur á mánuði fyrir Sjónvarp Símans og internet án þess að njóta þess og þurfa samtímis að greiða háar upphæðir fyrir notkun á pung.

Það var ekki liðinn klukkutími frá því ég sendi bréfið þegar G. kom í heimsókn og hóf að leita að bilunum í kerfinu hjá mér og fann þá fljótlega og kom öllum tengingum í lag. Starfsfólk Símans eða Mílu hafði þá skipt yfir á ljósnetið sama dag og ég hafði beðið um slíkt, en óvart víxlað tengingum og því var ég gjörsamlega sambandslaus í þessa daga til viðbótar. Eftir að G. hafði lokið að breyta tengingunum hafði fulltrúi Símans samband við mig og felldi niður nokkurra mánaða áskriftargjöld.

Nú er sambandið betra en nokkru sinni áður og ég er ánægð og vonandi Sími líka.


0 ummæli:Skrifa ummæli