laugardagur, apríl 14, 2012

14. apríl 2012 - Auglýsing frá Flugfélagi Íslands?

Það var eitthvað rólegt hjá mér á vaktinni á laugardegi og ég sat og fletti blöðunum, þar á meðal Fréttablaðinu og rak augun í auglýsingu frá Flugfélagi Íslands innan á baksíðunni um óvenju hagstæð kjör á ferð til Akureyrar eða samtals krónur 6.640 krónur fyrir aðra leiðina, en til samanburðar reikna þeir með að bílferðin aðra leiðina fyrir manninn kosti 15.209 krónur Enginn smámunur og ótrúlega lágt verð á miðanum norður. Kannski ætti ég bara að skella mér.

Ég hefi oft séð miklar sjónvarpsauglýsingar frá Flugfélagi Íslands þar sem þeir sýna ökumann bílsins koma til Hótel KEA, útkeyrður af þreytu eftir mikla svaðilför á leiðinni norður í land á meðan farþeginn í flugvélinni kemst á milli á áhyggjulausan hátt. Þessar auglýsingar hafa af einhverjum ástæðum aldrei náð að sannfæra mig, en tölurnar blasa við í blaðinu svo það er kannski ástæða til að skoða auglýsinguna betur.

Ég ákvað að skella mér norður í huganum með morgunfluginu í fyrramálið. En þá kostar farið með flugvélinni ekki lengur 6.640 krónur heldur 15.860 krónur. Ef ég flýg til baka með kvöldfluginu daginn eftir kostar sú ferð 13.200 krónur að auki. En það er ekki nóg að komast á milli flugvalla. Þar sem ég fer á eigin bíl frá Árbæjarhverfi til Vatnsmýrarflugvallar sem er næsti flugvöllur við heimili mitt þarf ég að kosta 400 krónum í rekstur bifreiðar þessa leið sem bætast við fargjaldið. Einnig þarf ég að greiða fyrir leigubíl frá flugvellinum á Akureyri í Glerárþorpið (eins gott að ég á ekki erindi til Húsavíkur eða Skagafjarðar) og kostar hann varla undir 2000 krónum. Á meðan ég bíð eftir að mér verði hleypt út í vélina á Vatnsmýrarflugvelli fæ ég mér eina kók og hún kostar 240 krónur. Kostnaður minn við að fara norður á Akureyri endar því á 18.500 krónum miðað við almennt ferðasæti enda ekkert spartilboð í boði á morgun.

Flugfélagið ætlar mér 40 mínútur til ferðarinnar. Þrátt fyrir það er flugtíminn 45 mínútur samkvæmt bókunarvél Flugfélags Íslands. Ég þarf að komast úr Árbæjarhverfinu og þar sem þetta er snemma á sunnudagsmorgni nægir að ætla mér hálftíma til að komast á flugvöllinn. Miðinn er tilbúinn og ég þarf því aðeins að bíða í hálftíma eftir að flugvélin fari í loftið. Eftir að lent er á Akureyri þarf ég að bíða eftir töskunum og síðan eftir leigubíl, samtals líða 45 mínútur frá því lent er uns ég er komin í hús í Glerárhverfi. Heildartíminn er því ekki 40 mínútur heldur 150 mínútur eða tveir og hálfur tími.

-----

Nú fer ég á bílnum norður til Akureyrar, enda á ég ekkert erindi þessa dagana til Skagafjarðar eða til Húsavíkur. Ég tek tölurnar sem eru gefnar upp í auglýsingunni um rekstrarkostnaðinn hátíðlega því þótt ég sé á þægilegum eðalvagni, þá er hann amerískrar gerðar og er álíka eyðslufrekur og bíllinn í auglýsingunni. Ég þarf ekki að tefja mig við Hvalfjarðargöngin þar sem ég er með áskrift sem kostar 283 krónur fyrir hverja ferð í gegnum göngin og ég kaupi mér eina kók í Borgarnesi á leiðinni á 240 krónur. Þegar ég fer á milli á ég það til að koma við í Varmahlíð eða Blönduósi og pissa, annars er óþarfi að stoppa þegar ég er ein á ferð. Ég sleppi því öllum pulsunum og ísnum í auglýsingunni. Hinsvegar gæti ég þess að aka ekki yfir hámarkshraða til þess að spara bensínið og er því rétt rúma fjóra tíma á leiðinni. Kostnaður 12.491 króna. Þetta miðast við að fara úr Árbæjarhverfi til Glerárþorps á Akureyri. Svo má velta fyrir sér sparnaðinum ef við erum tvö á ferðinni í bílnum í samanburði við að ferðast tvö saman í flugvélinni.

Ég er hætt við að taka flugið til Akureyrar. Það er of dýrt.


0 ummæli:Skrifa ummæli