miðvikudagur, apríl 04, 2012

4. apríl 2012 - Grænn apríl???

Ég heyrði í útvarpinu í dag að runninn væri upp grænn apríl. Margt sem þar kom fram er reyndar vel þekkt, en venjulega gleymast orðin um leið og þau hafa verið sögð. Margt að því sem sagt var í Síðdegisútvarpinu er þó stundað í blokkinni þar sem ég bý, t.d. flokkun á sorpi, en betur má ef duga skal. Klukkutíma áður hafði ég orðið vör við ranga umhverfisstefnu:

Ég skrapp í apótekið í dag og náði í lyfin mín. Jú mikil ósköp, ég þarf á lyfjum að halda enda væri ég annars með of háan blóðþrýsting. Þetta hefi ég gert oft áður og er hið besta mál.

Ég fæ lyfin afhent í bréfpoka. Annað lyfið heitir Amló og er afgreitt í plasthylkjum með 100 töflum. Þettu eru þægilegar umbúðir og auðvelt að skipta lyfjunum niður í skammtabox til að tryggja að munað sé eftir töflunni. Síðan tek ég upp pappaöskju sem merkt er Valpress Comp úr pokanum og opna hana. Þá blasa við mér 12 plastpjöld með sérpökkuðum töflum, samtals 14 töflum á hverju spjaldi og lokuðum með álspjaldi. Eins og gefur að skilja eru einungis 98 töflur í stóra kassanum og til að auðvelda mér notkunina á blóðþrýstingslyfjunum fæ ég mér gamalt og tómt plasthylki undan Amló sem ég hefi merkt Valpress, tíni allar pillurnar úr spjöldunum og set í plasthylkið. Þá er ég loksins komin með þægilegar umbúðir. Pappírsumbúðunum hendi ég svo ásamt ál/plastspjöldunum sem nýtast hvorki sem plastumbúðir vegna álsins né sem málmur vegna plastsins sem límt er við. Síðan á ég nóg til af blóðþrýstingslyfjum næstu 98 dagana, en þegar Valpress þrýtur á ég samt tvær töflur eftir af Amló. Er ekki eitthvað hér sem ekki stenst?

Þetta eru tvö lyf sem eiga að vinna saman og því tek ég eina töflu af hvoru lyfi á dag. Bæði eru þessi lyf framleidd af lyfjaverksmiðju suður í Hafnarfirði og ekki ætla ég að ætla Hafnfirðingum það að kunna ekki að reikna enda hið ágætasta fólk. Af hverju er ekki samræmi á milli hinna ýmsu lyfjategunda svo að það skipti ekki máli hvaða tegund notuð er af lyfjum og hvað með allar umbúðirnar sem ekki nýtast neinum?

Því miður er þetta enn eitt dæmið um óþarfa umbúðabruðl sem fyllir allar tunnur fyrir heimilissorp. Nóg er samt af slíku. Þessar lyfjaumbúðir skipta kannski ekki miklu máli fyrir hvert heimili en þegar allar hinar umbúðirnar sem bornar eru heim eru komnar til viðbótar er þær fljótar að fylla heilu sorptunnurnar flestum eða öllum til ama og leiðinda.

Hvað á ég svo að gera við þessar tvær töflur af Amló sem eftir eru?


0 ummæli:







Skrifa ummæli