sunnudagur, apríl 22, 2012

22. apríl 2012 - Svik við íslenska myndlistamenn?


22. apríl 2012 - Svik við íslenska myndlistamenn?

Í útvarpinu á sunnudegi kvartaði Einar Garibaldi Eiríksson sáran undan mannvonsku Alþingis að leita ekki til íslenskra myndlistamanna við málun á mynd af Sólveigu Pétursdóttur eða eins og haft er eftir honum „að þeir sem hafi beðið um þessa mynd hafi ekki mikinn áhuga eða skilning á því sem sé að gerast í íslenskri samtímalist.“

Ég get ekki séð að það sé mikil list fólgin í að mála Sólveigu Pétursdóttur hvort heldur er með hana sjálfa sem fyrirmynd eða mála hana eftir ljósmynd. Slíkt flokkast fremur sem iðnaður enda er ekki verið að krefjast neinnar listrænnar framúrstefnu. Þá má vel vera að Alþingi hafi kannað þann þátt mála en ef þeir hafa kynnt sér íslenska samtímalist eins og tröllskessuna á Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum sem á að tákna konuna, tilfinningaveruna og móðurina Guðríði Símonardóttur sem rænt var af Alsírmönnum árið 1627, þá hafa þeir snarlega hætt við að leita til íslenskra samtímalistamanna. Slík mynd af Sólveigu Pétursdóttur hefði orðið skelfileg.

Kannski hefði einhverjum dottið í hug að mála andlitið á Sólveigu inni í gylltum ramma ímyndaðrar salernissetu í minningu gullklósettsins sem var altalað í ráðherratíð Sólveigar eða sem pappalöggu. Því var iðnaðarmálverk af því tagi sem gert var hið eina rétta í stöðunni.


0 ummæli:Skrifa ummæli