miðvikudagur, nóvember 11, 2009

11. nóvember 2009 - Að kasta sér fyrir lest!

Þjóðverji einn kastaði sér fyrir lest á dögunum og dó, maður á besta aldri og toppmaður í íþróttum, landsliðsmaður í fótbolta, maður sem hafði barist við þunglyndi og gefist upp.

Aðstandendur mannsins eiga alla mína samúð sem og allir aðstandendur allra þeirra sem sjá enga aðra leið út úr erfiðleikum sínum en þá að svipta sig lífi. Um leið er verður að gera alvarlega athugasemd við þá aðferð sem maðurinn beitti við að svipta sig lífi.

Það er ákaflega ruddaleg aðferð við sjálfsmorð að kasta sér fyrir lest. Það er hægt að svipta sig lífi á annan hátt, hljóðlega og í kyrrþei. En hin árásarfulla aðferð skaðar marga aðra en þann sem sviptir sig lífi, þá fyrst og fremst lestarstjórann í þessu tilfelli. Líf hans eða hennar er í rúst á eftir og verður viðkomandi í flestum tilfellum ófær um að stjórna lest á eftir, verður jafnvel andlegur öryrki á eftir.

Mörg þau tilfelli þar sem einhver kastar sér fyrir lestina eiga sér stað á fjölmennum brautarstöðvum þar sem fjöldi fólks verður áhorfandi að sjálfsvíginu. Flestir áhorfendur verða miður sín á eftir, oft í langan tíma og það verður ávallt hræðileg minning sem brennir sig í vitundina það sem eftir er.

Ég held að fæst það fólk sem sviptir sig lífi á ruddalegan hátt, geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem sjálfsvígið veldur öllu því fólki sem koma að slysinu því annars myndi það velja aðrar aðferðir við að stytta sér aldur.


0 ummæli:Skrifa ummæli