þriðjudagur, nóvember 03, 2009

3. nóvember 2009 - Konur á rauðum sokkum

Var að horfa á kvikmyndina Konur á rauðum sokkum í sjónvarpinu. Mér þótti myndin mjög athyglisverð og skemmtileg á köflum, ekki síst fyrir þá sök að svo stutt er síðan rauðsokkurnar voru upp á sitt besta og um leið stutt síðan raunveruleg stéttabarátta kvenna á Íslandi hófst fyrir alvöru.

Ég viðurkenni alveg að ég hefði viljað sjá meira af samtímamyndbrotum frá þessum tíma og þá helst kvennafrídeginum 1975. Hann var mér minnisstæður enda fór ég með tveggja og hálfs mánaðar gamla dóttur mína með mér í skólann um morguninn. Í löngu frímínútunum um morguninn var haldinn kynningarfundur rauðsokkahrefingarinnar í hátíðarsalnum. Ég þurfti að byrja á að skipta á stelpunni áður en ég fór inn í hátíðarsal með hana í barnavagninum sem hafði verið keyptur notaður og í fremur bágbornu ástandi. Þegar ég keyrði barnavagninn inn í hátíðarsalinn byrjaði að ískra í einu hjólinu, allur salurinn heyrði og starði á mig með barnavagninn og það varð þessi generalhlátur í salnum.

Konan sem var í púltinu að tala misskyldi hláturinn og tók honum sem háði í minn garð og hóf að skamma salinn fyrir fordóma gegn einasta nemandanum sem tæki foreldrahlutverkinu alvarlega. Eftir fundinn var gefið frí í skólanum það sem eftir var dagsins enda erfitt að halda uppi aga þegar fjöldi nemenda voru með börn sín með sér og mikið um að vera í bænum.

Að sjálfsögðu fórum ég og dóttir mín niður í bæ á útifundinn eftir hádegið og trúlega hefur hún verið með yngstu þátttakendunum á útifundinum 24. október 1975, aðeins tveggja og hálfs mánaðar gömul.


0 ummæli:







Skrifa ummæli