fimmtudagur, nóvember 26, 2009

26. nóvember 2009 - Presturinn í Lammhult

Á sunnudaginn var hitti ég prestinn í Lammhult. Slíkt þætti venjulega ekki ekki í frásögur færandi þegar haft er í huga að ég hefi aldrei hafnað barnatrúnni og fremur talið mig kristna þótt sumir “kristnir” bókstafstrúarmenn vilji telja mig með því versta sem komið getur fyrir hinn kristna heim. Ég fór samt og bankaði upp á hjá presti á sunnudagskvöldið, enda eigum við ýmislegt sameiginlegt.

Annika Stacke er sóknarprestur í Lammhult. Á yngri árum var hún meðlimur í sérstrúarsöfnuði í sænska Biblíubeltinu og prestur þar, en einn góðan veðurdag sá hún að skoðanir hennar og sænsku þjóðkirkjunnar ættu frekar samleið en skoðanir pingströrelsen. Hún færði sig yfir í þjóðkirkjuna og hóf þá vegferð sem ég gekk einnig í gegnum og lauk aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni árið 2002. Hún hafði einnig verið í hjónabandi í fortíðinni og eignast börn og hún varð einnig um skeið formaður í föreningen Benjamin þar sem ég hafði gegnt formennsku í tvö ár um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Meðan á aðgerðarferlinu stóð, voru ýmsar hindranir lagðar fyrir Anniku Stacke, en hún stóð þær allar af sér með bros á vör og hlýju í hjarta. Haustið 2003 losnaði staða sóknarprests í Lammhult og Annika sóttu um og fékk stuðning biskupsins í Växjö til brauðsins. Eins og gefur að skilja varð allt vitlaust í sænska Biblíubeltinu þar sem pingströrelsen sleit öllu samstarfi við sænsku þjóðkirkjuna. Biskupinn gaf sig ekkert og Annika hélt brauðinu.

Sex árum síðar er allt dottið í dúnalogn. Pingströrelsen er löngu búin að sætta sig við ráðningu Anniku í embætti sóknarprests í Lammhult og sóknarbörnin eru mjög sátt við prestinn sinn sem bauð þeim hjartahlýju og bros er reynt var að hrekja hana í burtu með fordómum fyrir sex árum síðan.


0 ummæli:Skrifa ummæli