föstudagur, nóvember 27, 2009

27. nóvember 2009 – Christine

Þegar ég valdist sem formaður í föreningen Benjamín í Svíþjóð í ársbyrjun ársins 1994 fékk ég úrvals fólk með mér í stjórnina, m.a. meðstjórnandann Christine, transstúlku sem ég hafði allan vafa á í byrjun, en reyndist gull þegar á reyndi.

Hún var mörgum árum yngri en ég, framhleypin og vottaði fyrir athyglissýki hjá henni að mínu mati, en um leið manneskja sem hægt var að senda í hvaða verkefni sem var án þess að hún hikaði. Þennan kost hennar notaði ég án þess þó yfirkeyra stelpuna.

Eitt sinn vorum við beðnar um að mæta í sjónvarpsþátt í TV3 í Svíþjóð og auðvitað var Christine með í erfiðum klukkutíma þætti þar sem allt var látið flakka, okkar þarfir og langanir, meðferðarferlið og framtíðin.

Ári síðar lauk ég mínu aðgerðarferli og Christine ári á eftir mér. Ég flutti heim og missti tengslin við fólkið mitt í Svíþjóð. Ég fékk þó um skeið eina og aðra frétt af samtökunum okkar og örlögum virkustu meðlimanna, þar á meðal af Christine. Einhverjum árum síðar hvarf hún af sjónarsviðinu, flutti norður í land til foreldra sinna og ég missti öll tengsl.

Það var í fyrra að hún birtist mér á ný, á Facebook. Fjölskyldan hafði selt jörðina norður í Jämtland og flutt suður til Vestmanland og minnkað búskapinn og sjálf hafði hún gengið Facebook á hönd.

Á fimmtudaginn fór ég í heimsókn til Christine þar sem hún býr ásamt systur sinni og foreldrum nærri bænum Skinnskatteberg, talsvert fyrir norðvestan Västerås. Mitt í skóginum dundaði fjölskyldan sér við kindabúskap, lífrænt ræktaðar hænur af sömu gerð og margumtalaðar landnámshænur, endur og gæsir og seldi afurðirnar beint af býli, svona dæmigerður lífrænn sjálfsþurftarbúskapur. Þarna mátti ég hafa mig alla við að koma mér frá skapstyggum gæsasteggnum sem á að verða jólamaturinn í ár, merkilega skapgóðum kindum og heimilislegri sveitaverslun.

Einhvernveginn fékk ég á tilfinninguna að Christine væri á réttum stað í lífinu þar sem hún stóð í forinni í samfestingnum og talaði við ærnar, rétt eins og hver annar bóndi norður í landi á Íslandi.

En það var yndislegt að hitta hana aftur eftir þrettán ára aðskilnað.


0 ummæli:







Skrifa ummæli