Fólk er gjarnt á að skipta heiminum í hvítt eða svart þótt oft sé heilmikið á milli. Það eru til strákar og það eru til stelpur, en er það jafneinfalt og hvítt og svart?
Þar sem ég sit spennandi transráðstefnu í Linköping, hlustaði ég á fyrirlestur Del LaGrace Volcano um stöðu intersex fólks í heiminum. Hann er fæddur árið 1957 í Kaliforníu í Bandaríkjunum, fæddur með kynfæri beggja kynja og lifði fyrstu 37 ár ævinnar í kvenhlutverki. Eftir það ákvað hann að reyna að draga það besta fram í kostum kynjanna og hóf að lifa á milli kynja.
Hann hefur búið lengi í Englandi en býr nú í Svíþjóð. Hann sýndi okkur vegabréfið sitt þar sem fram kemur að hann er skráður sem kona, en þegar hann endurnýjar vegabréfið er hann vanur að setja kross á milli reitanna fyrir M og F og þótt hann sé með smáhökuskegg, dettur engum til hugar að spyrja hann hvað hann sjálfur vill, en það væri þá hvorugtveggja eða hvorugkyns.
P.s. Það er val Del LaGrace Volcano að vera ávarpaður í karlkyni út á við til að minnka hættuna á ofsóknum og barsmíðum.
Del LaGrace er lærður ljósmyndari og sjónlistamaður og snilldarlegur fyrirlestur hans gaf alveg nýja sýn á stöðu intersex fólks í heiminum og annarra þeirra sem kjósa að lifa á milli kynja í heimi sem hatar þá.
Eigum við að flokka Del LaGrace sem mann eða konu eða eitthvað annað? Ég segi fyrir mína parta, það skiptir ekki máli. Hann er fyrst og fremst manneskja sem hefur sýnt okkur að það er allt of mikið til í heiminum til að hægt sé að skipta öllum heiminum í hvítt og svart!
fimmtudagur, nóvember 19, 2009
19. nóvember 2009 - Maður eða kona eða ...?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:16
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli