þriðjudagur, apríl 10, 2007

10. apríl 2007 - Eftir góða lesbíuheimsókn“Af hverju varstu eiginlega að fara í aðgerð ef þú hefur engan áhuga fyrir strákum?”
Oft hefi ég fengið þessa spurningu og ég viðurkenni fúslega að ég á alltaf jafnerfitt með að útskýra tilfinningar mínar gagnvart karlmönnum.

Senn verða komin 12 ár frá því ég fór í fræga aðgerð mína í Svíþjóð og þessi örfáu skipti sem ég hefi lifað með karlmönnum hafa ekki veitt mér neina sérstaka ánægju. Ég hefi því fremur kosið að lifa einlífi með kisunum mínum en reynt að vera opin gagnvart öllu því sem kalla má Queer theories. Þegar að auki er haft í huga, að minn besti stuðningur á Íslandi áður en ég hélt af landi brott fyrir hartnær tveimur áratugum voru lesbískar konur, þá hefi ég ávallt reynt að endurgjalda stuðninginn með gagnkvæmum stuðningi. Því gekk ég úr rúmi fyrir nokkrum stelpum frá Hollandi um helgina og vona að kisurnar mínar fyrirgefi mér að þær fengu ekki sofa i herbergjunum sínum um helgina.

Það var líka alveg tilvalið fyrir keppendur í lesbíska blakmótinu að gista hjá mér í örfárra mínútna göngufæri frá mér að mótsstað og nóg pláss því þröngt mega sáttar sitja. Sjálfa grunar mig að ég hafi eignast nokkrar góðar vinkonur sem verður gaman að hitta aftur hvort heldur verður hér á landi eða í Hollandi, en þangað verður næstu utanlandsför minni heitið eftir nokkra daga.

-----oOo-----

Hetjurnar mínar í Halifaxhreppi voru burstaðar í ensku kvenfélagsdeildinni á öðrum degi páska og mega nú óttast um sinn hag þegar senn sér fyrir endann á Englandsmeistaramótinu í fótbolta. Öllu betur gekk hjá köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps sem unnu eitthvert smálið með þremur mörkum gegn engu og getur nú einungis stórslys eða kraftaverk komið í veg fyrir sigur þeirra í efstu Vestfjarðadeild. Með sigri í vor bæta þeir þriðja bikarnum í safnið á tveimur árum, en áður hafa þeir unnið deildarbikar Vestfjarðadeildarinnar auk sigurs í neðri Vestfjarðadeild í fyrra og væntanlegum sigri í efri Vestfjarðadeild á næstu vikum.


0 ummæli:Skrifa ummæli