mánudagur, apríl 23, 2007

23. apríl 2007 - Spítalareykingar


Eins og fólk sem hefur þekkt mig lengi ætti að vita, þá var ég stórreykingamanneskja í mörg ár og skilaði mínum 30 sígarettum af mengun út í andrúmsloftið að meðaltali á hverjum degi. Mér var ljós skaðsemin og þrátt fyrir vilja minn til að hætta, var fíknin jafnan slík að það reyndist ómögulegt.

Í apríl 1995 gerði ég enn eina tilraunina til að hætta. Ég hafði fengið boð um að leggjast inn á spítala og vitandi um ýmsar skorður við reykingum á sjúkrahúsum í Svíþjóð, ákvað ég að reyna að hætta áður en ég legðist inn. Nokkrum dögum áður hætti ég að reykja fyrir hádegi og minnkaði verulega reykingar á kvöldin. Svo þegar kom að innlögninni að kvöldi 23. apríl 1995, fékk ég mér eitt gott bloss á tröppunum áður en ég hélt inn á spítalann og taldi mér um leið þá trú að ég væri hætt.

Nóttin var þolanleg. Um morguninn fór ég í aðgerð og hafði lítinn tíma til að hugsa um reykingar næstu tvo dagana, enda gaf heilsufarið mér ekki færi á hugsa mikið um slíkt, gjörsamlega ófær um eitt né neitt með mænustungu og þvaglegg. Þó fór ég óðum að hressast í góðum höndum hjúkrunarfólksins á Karólinska sjúkrahúsinu þar sem ég lá á einkastofu.

Brátt fór ég þó að taka eftir ýmsu í umhverfinu. Á svölum annarrar álmu spítalans sem blasti við augum mínum þar sem ég lá, var stöðugur straumur starfsfólks og sjúklinga úti að reykja. Hjúkkurnar sem sáu um mig loftræstu vel og reglulega stofuna sem ég lá á og fóru svo út á svalir við hliðina á stofunni að reykja. Reykinn lagði beint inn til mín. Það var ekki liðinn langur tími uns ég vissi nákvæmlega hvaða tegundir af sígarettum hver reykti þar sem örþunnir hjúkkuslopparnir leyndu fremur illa því sem var í vösum þeirra.

Ég hélt út í viku. Þá var ég orðin svo hress að mér tókst með erfiðismunum að komast út á svalir í smók með hinum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli