laugardagur, apríl 21, 2007

21. apríl 2007 - Er Sovét-Ísland komið?


Sovét-Ísland, draumalandið, hvenær kemur þú? Þessi orð eins hinna Rauðu penna hafa löngum verið höfð að háði og spotti meðal íslenskra hægrimanna sem fundu skoðunum íslenskra vinstrimanna allt til foráttu á fyrri hluta tuttugustu aldar og þá sérstaklega trú þeirra á hinum ungu Sovétríkjum, en einnig misréttinu sem ríkti þar austur frá.

Nú er misréttið komið til Íslands til að vera. Hér er búsett ný stétt manna sem ferðast á milli á einkaþotum og lifa lífi sem við sauðsvartur almúginn þekkjum ekki og vart í okkar villtustu draumum, fá dýrustu skemmtikrafta heims til að skemmta sér og fjölskyldum sínum í afmælum og um áramót og eiga allt það flottasta sem hægt er að komast yfir. Þessi nýja stétt veður í peningum og greiðir einungis 10% skatt en fær þó fulla þjónustu. Ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla þessu að sinni, fremur því þjóðskipulagi sem mismunar þegnunum á þann hátt að hún skiptist í tvær þjóðir í sama landinu, hina forríku og alla hina. Í Sovétríkjunum voru líka tvær þjóðir, háttsettir í flokknum og svo allir hinir.

Nú hefur hið hataða skrifræði Sovétríkjanna einnig náð til Íslands. Lettneskur trésmiður og eiginkona hans sem vinnur við þrif, fá ekki dagheimilispláss fyrir börn sín. Ástæðan. Íslenskt skrifræði á tímum sem hörð hægristjórn hefur setið hér við völd í tólf ár.

Ekki verður lettnesku hjónunum kennt um að lifa á félagslega kerfinu, greinilega harðdugleg hjón sem skila sínu til samfélagsins og fá ekkert í staðinn. Alls ekkert. Ekki einu sinni dagheimilispláss fyrir börnin. Í þessu tilfelli er börnunum refsað fyrir að vera til og að hafa ekki uppfyllt ítrustu kröfur um gildistíma vegabréfa og nú bíður fjölskyldunnar löng og ströng leið um hið íslenska skrifræði áður en þau fá að njóta dvalar sinnar hér á landi.

Ég held að við þurfum ekki lengur að bíða eftir komu Sovét-Íslands. Það er hérna undir vökulum augum ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, allavega sá hluti þess sem líkt er við misrétti og skrifræði.


http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item151478/

-----oOo-----

Svo fær Luton aðdáandinn Stefán Pálsson, samúðarkveðjur frá okkur á Moggabloggi eftir fall Luton um deild á föstudagskvöldið. Megi þeir rísa upp aftur jafnskjótt og Stefán kemur yfir á Moggabloggið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli