sunnudagur, apríl 29, 2007

30. apríl 2007 - Drottningin gleymdi mér, eða hvað?


Hún Júlíana Hollandsdrottning gleymdi að bjóða mér í afmælið sitt 30. apríl. Það gerir að vísu ekkert til því gamla konan hefur legið í gröf sinni í þrjú ár og þar niðri er bæði kalt og dimmt, annað en hér uppi á yfirborðinu. Ég ætla þess í stað að eyða deginum við að njóta fólksmergðarinnar í miðborg Amsterdam og svo að heilsa upp á vinkonur mínar sem heimsóttu mig um páskana.

Harðstjórinn okkar píndi okkur allan sunnudaginn. Fundurinn sem átti að taka þrjá tíma endaði í tíu tímum og voru þá enn fjölmörg mál óleyst. Eins gott að það verður fundur í Berlín í september. Þegar við loksins sluppum út af fundinum klukkan hálfátta um kvöldið, datt Evu til hugar að kíkja á kínverskan veitingastað. Að sjálfsögðu mótmælti ég og linnti ekki látum fyrr en við höfðum fundið ósköp notalegt argentínskt steikhús þar sem hægt var að borða fylli sína án þess að fara á hausinn.

Eftir matinn var farið í góða gönguferð um bæinn og mannlífið skoðað. Það var geggjað ef frá er talinn áhugi Jó fyrir hollenskum portkonum. Það var hvergi hægt að snúa sér við fyrir drukknum Hollendingum sem vildu njóta næturinnar. Allar krár voru yfirfullar og á endanum hrökklaðist ég heim á hótel enda erfiður mánudagur framundan þótt drottningin vildi ekki bjóða mér í afmælið sitt.

-----oOo-----

Svo fær Kalli kóngur í Sverige hamingjuóskir með 61 árs afmælið sitt.


0 ummæli:Skrifa ummæli