mánudagur, apríl 02, 2007

2. apríl 2007 - Hinn hataði málmur

Enn og aftur er ál orðið hinn versti málmur. Hér gengur maður undir manns hönd og bölvar þessum ágæta málmi út í ystu myrkur og vill helst losna við það úr umhverfi sínu, án þess að gera sér grein fyrir því að ál er allsstaðar meðal okkar, jafnvel í barmmerkjunum gegn áli.

Það eru vissulega til önnur efni sem hafa svipaða eiginleika og ál, eins og magnesíum og koltrefjaefni sem að auki eru miklu léttara en ál. Af hverju eru þá ekki fleiri umhverfissinnaðir Íslendingar sem mótmæla áli á reiðhjólum úr þessum efnum? Svarið er einfalt. Reiðhjól úr koltrefjum eru of dýr og magnesíum er oft notað til íblöndunar í ál til að styrkja það. Að auki láta “umhverfissinnaðir” Íslendingar ekki sjá sig á reiðhjóli dags daglega að örfáum undanskildum þar á meðal Magnúsi Bergssyni. Hinir halda að þeir spari með því að nota smábíla sem ekki eru úr áli. (sic!)

Mótmælendurnir ferðast um á bílum. Vélarblokkin í bílunum þeirra er nær undantekningarlaust úr áli, sömuleiðis gírkassinn og drifhúsið. Einstöku slitþættir í vélunum eru úr áli eins og stimplarnir. Þá eru heilmargir aðrir hlutir í bílunum þeirra úr áli. Sömu sögu er að segja um flugvélar. Þær eru að miklu leyti úr áli og sagt er að um 75 tonn af áli fari í hverja Boeing 747. Þá er heilmikið ál í flugvél álmótmælandans Ómars Ragnarssonar hvort sem honum líkar það betur eða verr og sennilega einnig í smábílnum hans

Ég hefi áður nefnt að ál er mikið notað í leiðara og var harðlega mótmælt. Satt er það engu að síður og má nefna að burðarvirkin myndu varla bera loftlínur úr þyngri málmum sem eru allt að fjórum sinnum þyngri nema með mikilli fjölgun burðarvirkjanna.

Allt í kringum okkur er ál. Ef það er ekki í hlutunum í kringum okkur er það örugglega til í framleiðsluferlinu eins og saumvélunum sem notaðar eru til að sauma fötin á okkur. Þá er eldhúsið yfirfullt af áli, sem finnst í ísskápnum, uppþvottavélinni, lömpum, tölvum, farsímum, sjónvörpum. Sökum léttleika álsins og verðsins hefur það víða komið í staðinn fyrir þyngri málma og léttleikinn er að auki orkusparandi. Því er furðulegt að mótmælendurnir skuli ekki hvetja til notkunar á áli í stað þess að mótmæla því.

Vissulega má bæta endurvinnsluna á áli. Það er skilagjald á álumbúðum eins og dósum, en minna um skilagjald á öðrum umbúðum eins og tilbúnum mat í álbökkum. Það er hinsvegar ekki skilagjald á flestum öðrum umbúðum eins og niðursuðudósum. Hvert á t.d. að skila dósum undan grænum baunum?

Við vitum ósköp vel að Steingrímur Jóhann er á móti áli, en hann hefur löngum verið á móti öllum framförum og kemur það ekki á óvart. Öllu furðulegri finnst mér afstaða Ómars Ragnarssonar sem ég hélt vera umhverfissinna af einlægni. Grátlegust finnst mér þó afstaða félaga minna í Samfylkingunni, að hlaupa svona undir öfgastefnu Steingríms Jóhanns í stað þess að stuðla orkusparnaði fyrir allan heiminn með framleiðslu á enn meira áli í stað þyngri málma.

Vissulega unnu Vinstrigrænir nauman sigur í Hafnarfirði í fyrradag, en umhverfið tapaði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli