laugardagur, apríl 07, 2007

7. apríl 2007 - Ég kem þessu á nágranna minn!



Á skírdagsmorguninn lenti ég í morgunkaffi hjá ónefndum borgarfulltrúa og bauðst til að taka að mér að bera kosningabæklinga fyrir flokkinn í eina litla götu í Árbænum. Ég taldi þetta létt verk og löðurmannlegt, enda bæklingurinn einungis ætlaður (h)eldri borgurum hverfisins. Þegar við skiptum hverfinu á milli okkar, fannst mér eðlilegast að taka götuna sem ég bý við og bauðst því til að bera út í Hraunbæinn að nr 120.

Þú gerir þér grein fyrir því að þetta er dálítið mikið verk sagði mér einhver. Ekkert mál hugsaði ég, læt nágranna minn sem er í flokknum og mikill göngugarpur um að bera megnið af þessu út, en tek sjálf næstu stigaganga. Upphátt sagði ég að þetta væri ekki mikið mál, eintómar blokkir!

Þegar heim var komið, bar ég snarlega út í næstu stigaganga og hugsaði nágranna mínum þegjandi þörfina á góðum göngutúr og hringdi hjá honum. Enginn heima. Um kvöldið reyndi ég aftur að ná sambandi, en hann var enn ekki kominn heim. Ekki heldur að morgni föstudagsins langa. Hvert hefur drengurinn farið? Jæja, ég verð þá að taka nokkrum húsnúmerum meira, hugsaði ég og rölti af stað með bæklingana.

Þremur klukkutímum síðar kom ég heim aftur dauðþreytt, búin með allt ætlunarverkið, að bera út bæklingana í fjölmennustu götu Reykjavíkur. Það verður sko bið á því að ég taki að mér verk til að láta nágrannann leysa!

-----oOo-----

Í prentMogganum á fimmtudag (skírdag) var sagt frá því er Norröna slitnaði frá bryggju á Seyðisfirði og fyrirsögnin var eftirfarandi: “Skipstjórinn snaraði vélunum í gang og sigldi í var”.

Hvar var vakthafandi vélstjóri á meðan skipstjórinn tók fram fyrir hendurnar á honum og snaraði vélunum í gang?


0 ummæli:







Skrifa ummæli