föstudagur, apríl 20, 2007

20. apríl 2007 - FC United of Manchester

Fyrir tveimur árum fóru nokkrir rótgrónustu stuðningsmenn Manchester United í fýlu. Einhver Kani sem hafði ekki hundsvit á fótbolta, keypti uppáhaldsliðið þeirra. Það var nú meira en sumir þoldu og þegar ljóst var að Malcolm Glazer hafði náð meirihluta í félaginu, var slegið á fundi. Menn horfðu þar hver á annan og veltu fyrir sér stóru orðunum, hvort þeir ættu að efna þau eða bara að gleyma hótunum sínum og láta kyrrt liggja. Malcolm Glazer yrði svosem ekkert að þvælast fyrir þeim og hefði aldrei séð knattspyrnuleik.

Hinir hörðustu í hópnum voru ekkert að éta ofan í sig stóru orðin og stóðu fastir á því að stofna nýtt félag. Að endingu var ákveðið á öðrum fundinum sem haldinn var 30. maí 2005, að ef 1000 manns yrðu búnir að skrifa sig á stuðningsmannalista nýs félags fyrir lok júlí, yrði félagið stofnað.

Það tók ekki marga daga að safna 1000 stuðningsmönnum og eftir skoðanakönnun var nafnið FC United of Manchester tilkynnt þann 14. júní 2005. Einkennisorð félagsins urðu að sjálfsögðu “I don´t have to sell my soul” Fyrsti leikurinn var síðan vináttuleikur gegn Leigh RMI 16 júlí 2005 og endaði leikurinn 0-0.

Eins og nýburum sæmir, hóf félagið svo keppni á botninum eða í neðstu Vestfjarðadeild
haustið 2005 (North West Counties League Division 2), en þaðan liggja allar leiðir upp á við. Það þarf víst ekkert að fjölyrða um árangurinn, en fyrsta dollan kom í væntanlegt safn um vorið. Nú í vetur hafa tvær dollur bæst við, ein fyrir deildarbikar Vestfjarðadeildar og síðan bættist önnur við á miðvikudag, er liðið tryggði sér sigur í efstu Vestfjarðadeild (North West Counties League Division one), þótt það eigi enn þrjá leiki til góða.

Næsta vetur ætlar liðið að halda áfam sigurgöngu sinni og spilar þá í áttundu deild. Þeim fækkar stöðugt deildunum sem þarf að vinna uns gamla móðurfélagið verður lagt að velli um leið og Rassenal, Lifrarpollur og Efratún verða að lúta í gras.

http://en.wikipedia.org/wiki/FC_United_of_Manchester


0 ummæli:Skrifa ummæli