miðvikudagur, apríl 25, 2007

25. apríl 2007 - Vesalings Bogga.

Hún Bogga sem er fjarskyld frænka mín á allar mínar samúðarkveðjur í dag því Þorsteinn bróðir hennar er dáinn. Hann lést fyrir 12 dögum síðan á líknardeildinni og jarðsettur í dag 25. apríl. Því er Bogga ein eftirlifandi af sex systkina hópi þeirra Eyjólfs og Guðnýjar í Hákoti í Bessastaðahreppi.

Ég er ekki að hæðast að neinum með fyrirsögninni, en í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 12. september síðastliðinn skein kærleikurinn af Þorbjörgu Eyjólfsdóttur til bróður síns þar sem hún, tæplega 102 ára gömul, var í hópi afmælisgesta í 100 ára afmæli Þorsteins sem nú er látinn saddur lífdaga.

Ekki get ég sagt að ég hafi þekkt Þorstein Eyjólfsson mikið, reyndar aðeins heyrt hann af afspurn. Ég man óljóst eftir elstu systrunum sem bjuggu suður í Garði, Guðrúnu og Kristínu, en þekkti lítillega Eyjólf Þorkelsson á Bíldudal systurson Þorsteins sem og Yrsu Sigurðardóttur verkfræðing og rithöfund, barnabarn Þorsteins.

Samt var aldrei langt í Þorstein. Móðir mín talaði oft um hann og systkini hans og eldri systkini mín töluðu hlýlega um systkinin frá Hákoti. Þá var einn móðurbróðir minn, Eyjólfur veðurfræðingur skírður í höfuðið á foreldrum Þorsteins, Eyjólfi og Guðnýju (sjá Húsafellsætt 1. bindi bls 156).

Án þess að ég vilji fullyrða neitt, leyfi ég mér að halda að stærsta áfall fjölskyldunnar frá Hákoti hafi verið 18. febrúar 1943. Þá fórst vélbáturinn Þormóður frá Bíldudal og með honum 31 manneskja, áhöfn og farþegar. Þar fórst yngsta systirin, Sigríður 33 ára gömul ásamt eiginmanni og eldri syni, en Eyjólfur Þorkelsson yngri sonur þeirra hafði verið skilinn eftir í umsjá föðurforeldra sinna og einn eftir.

Sjálfur var Þorsteinn skipstjóri í Hafnarfirði og annálaður aflamaður. Megi minning hans og Laufeyjar Guðnadóttur eiginkonu hans lifa um langa framtíð.

Með þessum orðum er óþarfi að senda mér samúðarkveðjur, enda þekkti ég Þorstein einungis af afspurn, en munum að sýna öldruðum ættingjum okkar þann kærleika sem þau eiga skilið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli