mánudagur, janúar 12, 2009

12. janúar 2009 - Klúbbur fyrir einhleypa

Eins og fólk sem þekkir mig veit, þá hefi ég verið einhleyp í aldarfjórðung. Vissulega hefi ég prófað eitt og annað á þessum langa tíma, en aldrei komist nálægt því að lenda í sambúð öðru sinni hvað þá hjónabandi.

Þrátt fyrir þessa eindregnu afstöðu mína gegn því að lenda í sambúð, vantar mig oft fólk sem er tilbúið að rölta með í gönguferðir eða á kráarrölt eða í leikhús og því eðlilegast að leita einhverra sem eru í sömu aðstöðu. Og sjá. Þar sem ég ferðast um á víðáttum Snjáldurskinnu rekst ég á slíkan klúbb, einhvern sem er kallaður Singles eða Sólóklúbburinn upp á ástkæra ylhýra.

Loksins, loksins, hugsaði ég og fór að skoða listann yfir þátttakendur. Ég þekkti þar nokkur nöfn, fólk sem ég vissi ekki að væri orðið einhleypt og fólk sem reynir allt hvað af tekur til að losna úr þessu einhleypa ástandi sínu. Það sem var þó verst, var að það voru aldurstakmörk því einhleypir eru nefnilega bara á milli þrítugs og fimmtugs, ef marka má inntökuskilyrði klúbbsins.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að hið raunverulega markmið Sólóklúbbsins sé að útrýma sjálfum sér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli