laugardagur, janúar 03, 2009

3. janúar 2009 - Maður er nefndur!

Í dag langar mig til að minnast á einn fremsta atvinnubifreiðarstjóra sem ég veit og sem á stórafmæli í dag, nei nei, ég er ekki að fara að minnast á Sturlu Jónsson, né heldur leigubílstjórann í Spaugstofunni, enda er sá sem um er rætt, hættur akstri og sestur í helgan stein saddur lífdaga á hlykkjóttum vegum víða um heim.

Maðurinn sem ég hefi í huga hefur marga fjöruna sopið og margt afrekið unnið. Ekki hefur hann ætíð komist heill frá akstrinum og fótbrotnaði eitt sinn er hann var að flytja viðkvæmar vörur (sjálfan sig) um landbúnaðarhéruð Stóra-Bretlands á síðustu öld og þurfti þá að dvelja á heimili sínu í Sviss í nokkra mánuði. Þá fór hann stöku sinnum framúr sjálfum sér og hlaut nokkrar hraðasektir fyrir, enda er kapp best með forsjá. Hann hélt þó áfram að aka sem aldrei fyrr eða þar til hann hætti akstri sökum aldurs árið 2006.

Ellilífeyrisþegi sá sem um er rætt, fæddist suður í Þýskalandi, nánar tiltekið í Rínarhéruðum landsins eigi fjarri landamærum Belgíu á viðsjárverðum tímum þegar allt var á hraðri uppleið eftir erfiða áratugi og slæmar styrjaldir og með bros á vör var hann fljótur að sjá að hans barátta í lífinu væri á vegunum, á strætunum, á brautunum, á kappakstursbrautunum. Og hann tók fram úr þeim fyrsta og öðrum og að lokum fór hann framúr þeim öllum, enn með bros á vör og sigur í hjarta.

Enn í dag ber hann aldurinn vel, heldur enn hári og tönnum, heyrnin er þokkaleg og bæði augu enn í augntóftunum þar sem þau eiga heima. Á hverjum morgni fer hann í göngutúr frá elliheimilinu þar sem hann býr og rekur sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í Gland, ekki fjarri Genf í Sviss, með eða án göngugrindar og mun vonandi gera enn um langa hríð.

Hann getur líka trútt um talað, meðal annars farið framúr næstum öllum, nánar tiltekið öllum nema mér. Það þætti líka skrýtið ef Michael Schumacher færi framúr mér sem fékk ökuleyfið fjórum dögum áður en hann fæddist, fyrir nákvæmlega fjörtíu árum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli