miðvikudagur, janúar 07, 2009

7. janúar 2009 - Hrafnhildur ofurkisa

Eitthvert það versta sem getur komið fyrir heimilisdýr er hávaðinn frá blysum og flugeldum dagana kringum áramót. Vegna þessa hélt ég kisunum mínum inni frá því á annan dag jóla og framyfir nýár. Þegar fimmti dagur nýs árs rann upp var Hrafnhildur ofurkisa búin að fá nóg af inniverunni og heimtaði að fara út með mér um leið og ég fór til vinnu. Það gekk ljómandi vel og hún beið stillt og prúð fyrir utan þegar ég kom heim af vaktinni.

Daginn eftir, á þrettándanum, krafðist hún þess enn frekar að fylgja mér út er ég hélt til vinnu og var það auðsótt mál. Þegar ég kom heim frá vinnu, var hún hinsvegar hvergi sjáanleg og mikill hávaði af allskyns sprengjudóti um allt hverfið. Hún var greinilega komin í felur einhversstaðar.

Þegar liðið var fram á kvöldið og hægja tók á sprengjulátunum fékk ég mér labbitúr um hverfið. Ekki var ég ein því Tómas köttur á jarðhæðinni vildi endilega slást í för með mér. Honum stóð þó ekki á sama, því í hvert sinn sem einhver sprenging heyrðist, var hann kominn undir tré eða bíl. Engin fannst Hrafnhildur.

Ég fór aftur út þegar komið var framyfir miðnætti. Um leið og ég kom út á bílastæði, birtist Hrafnhildur ofurkisa, rennblaut og skítug eftir slæma vist undir einhverjum skrjóðnum og enn miður sín eftir hræðslu kvöldsins.

Það er ljóst að ég þarf að gera ráð fyrir tveimur hjásvæfum í bólinu mínu í nótt. Mikið er samt gott til þess að vita, að sprengjugleði landans er lokið þennan veturinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli