miðvikudagur, janúar 21, 2009

21. janúar 2009 - Nú fékk ég nóg!

Það hefði mátt ætla, þegar Alþingi kom saman að nýju eftir mánaðar jólafrí og þjóðin var komin enn lengra út á ystu brún glötunar eftir nýfrjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins, að þingið myndi byrja á ræða aðgerðir til handa hnípinni þjóð í vanda. Ónei, fyrsta málið sem átti að ræða var frumvarp um að selja áfengi í matvöruverslunum.

Daginn áður boðaði Sjálfstæðismaðurinn og sýslumaðurinn á Selfossi, sá hinn sami sem kenndur var við þvagleggsmálið, hertar aðgerðir gegn fólki sem komið er í vanskil eftir að kreppa af völdum nýfrjálshyggjunnar er farin að hafa áhrif á fólk og ekki eru liðnir margir dagar frá því að kynntur var fyrsti hlutinn í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Dómsmálaráðuneytið varð að slá á puttana á sýslumanninum og Sigurður Kári neyddist til að draga áfengisfrumvarpið til baka að sinni á sama tíma og þúsundir stóðu á Austurvelli og mótmæltu aðgerðarleysi Alþingis.

Það breytir ekki því að þessi þrjú dæmi sem ég nefndi lýsa svo mikilli vanvirðingu á íslensku þjóðinni og veruleikafirringu að lengur verður ekki við unað. Það verður að krefjast þess af Samfylkingunni að hún slíti þegar í stað stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og að efnt verði til nýrra kosninga sem fyrst þar sem þjóðin fær að segja álit sitt á verkum þessara manna sem og annarra þeirra alþingsimanna og ráðherra sem eiga sök á nýfrjálshyggjunni og þjóðargjaldþrotinu.

Ef hún gerir það ekki þegar í stað, mun fylgið hrynja af Samfylkingunni eins og barr af gömlu jólatré, þ.e. ef það er ekki þegar farið.

Allavega er ég búin að fá nóg af aðgerðarleysi ríkisstjórnar og Alþingis gagnvart spillingu og milljarðaþjófnaði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli