mánudagur, janúar 19, 2009

19. janúar 2009 - Framsóknarmenn

Þótt haft sé í huga að ég verð seint talin Framsóknarmanneskja og ætti þar af leiðandi ekki að skipta mér af innri málefnum Framsóknarflokksins, þá get ég ekki látið hjá líða að nefna aðeins landsfund flokksins sem átti sér stað um helgina og þá endurnýjun sem átti sér stað innan flokksins.

þegar bróðir fyrrum krónprins Framsóknarflokksins bauð sig fram til formanns flokksins fyrir jólin átti ég ekki von á öðru en að flokksmenn myndu fylkja sér um hann að fyrirskipun flokkseigendafélagsins þótt kjör hans hefði um leið orðið að svanasöng Framsóknarflokksins, ekki vegna þess að pilturinn væri neitt slæmur strákur, fremur vegna þess að þar með ætti Framsóknarflokkurinn óhægt um vik að gera upp við fortíð sína og margumtalaða spillingu sem svo lengi hefur verið höfð í flimtingum. Páll Magnússon hafði verið svo rækilega tengdur forystu flokksins allt frá unglingsaldri að erfitt yrði fyrir flokkinn að kveðja fortíðina með fortíðina sjálfa í forystu þótt Páll sé enn ungur að árum.

Ég held að það sé ljóst að Framsóknarmenn hafi sjálfir verið búnir að fá nóg af fortíðardraugum. Því völdu þeir sér nýja og vonandi ferska forystu. Ég efast ekki um að allt það fólk sem var í framboði hafi allt verið hið frambærilegasta, en rétt eins og Páll, hefur Siv einnig verið lengi í forystusveit og þátttakandi í ákvörðunum flokksins á tímum stjórnarsamstarfs á tímum nýfrjálshyggju og Hrunadans. Því var nauðsynlegt að hreinsa einnig til í öðrum stöðum í æðstu stjórn Framsóknarflokksins.

Nú má velta fyrir sér hvort ekki sé tími kominn að hreinsa til í öðrum flokkum og hefi ég þá sérstaklega í huga ónefndan flokk sem hefur verið í stjórnarforystu í alltof mörg ár.

Öðruvísi getur nýtt og betra Ísland aldrei orðið að veruleika.


0 ummæli:







Skrifa ummæli