laugardagur, janúar 31, 2009

31. janúar 2009 – Framsókn söm við sig að venju

Í sakleysi mínu stóð ég í þeirri trú að þegar einhver hópur þingmanna á Alþingi ákveður að verja ríkisstjórn vantrausti, væri það gert án skilyrða um málefni, samanber þessi tvö tilfelli þegar Sjálfstæðisflokkur varði minnihlutastjórn Alþýðuflokksins gegn vantrausti eins og átti sér stað 1959 og 1979. Nú hefi ég komist að öðru.

Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn að verja nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs gegn vantrausti í skamman tíma eða til næstu kosninga sem verða væntanlega haldnar í vor. En öfugt við það sem ég hélt, er settur fjöldi skilyrða gegn vantrausti fyrir kannski þriggja mánaða bráðbirgðastjórn. Þetta er farið að lykta eins og að gamla Framsókn ætli að stjórna í þessa þrjá mánuði, en án ábyrgðar. Því er álitamál hvort ekki sé betra að skila inn stjórnarmyndunarumboðinu vegna krafna þeirra og láta íhaldið mynda meirihluta með Framsókn. Það má svo velta því fyrir sér hvort það sé ekki hin sanna draumsýn Framsóknar að komast aftur upp í rúm hjá íhaldinu eins og á nýfrjálshyggjuárunum frá 1995 til 2007.

Ég held að ég myndi þá hugsa mér til hreyfings úr þessu spillingarbæli sem Ísland varð á þeim árum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli