mánudagur, apríl 13, 2009

13. apríl 2009 - Um heilindi Einars

Ég hefi ávallt litið á Einar Kr. Guðfinnsson sem heiðarlegan stjórnmálamann, að vísu stjórnmálamanns sem hefur orðið að lúta í gras í skoðunum fyrir útgerðarauðvaldi og kvótakóngum, en samt heiðarlegs manns sem á erfitt uppdráttar með skoðanir sínar í flokki sínum. Þó fór ég að efast eftir nýjasta pistil hans á heimasíðu sinni, en þar endar hann pistilinn á þessa leið:

„Með þessum hætti og fyrir atbeina forystu flokksins hefur verið varpað skýru ljósi á málið. Flokkurinn hefur játað mistök með því að endurgreiða upphæðina og menn axlað ábyrgð. Þannig hefur verið tekið heiðarlega á málinu og af myndarskap, rétt eins og okkur ber að gera við svona aðstæður.

Í þessum efnum eins og öðrum ber okkur að virða sannleikann og hafa heiðarleika í hávegum, eins og alltaf. Það hefur og er aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins og því merki höldum við hátt á lofti.“

Einar Kr. Guðfinnsson kallar þetta mistök. Flokksforysta hans gerir sig seka, í besta falli, að hafa látið milljarðaglæpamenn bera á sig fé til að kaupa sér velvilja, í versta falli stórfelldar mútur. Slíkt eru engin mistök. Það má vera að þessi fjáraustur til Sjálfstæðisflokksins frá útrásarvíkingunum hafi verið löglegur, en siðlaus var hann tveimur dögum áður en lög tóku gildi sem bönnuðu slíkt athæfi.

Nei Einar minn. Þetta voru ekki mistök, hvort heldur Guðlaugur Þór Þórðarson lét félaga sína taka á sig sökina eður ei. Það voru enn síður mistök ef um var að ræða mútuþægni eins og suma grunar.

Ég ætla samt að vona að ég þurfi ekki að efast um heilindi Einars Kr. Guðfinnssonar, heldur vil ég fremur líta svo á að pistill hans hafi verið mistök sem honum beri að biðjast afsökunar á.

Pistillinn í heild sinni:
http://www.ekg.is/blogg/nr/1008


0 ummæli:







Skrifa ummæli