fimmtudagur, apríl 09, 2009

9. apríl 2009 - Einustu múturnar?

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur viðurkennt að hafa tekið á móti tvennum mútum, samtals að upphæð 55 milljónir má fullyrða að þeir hafi aldrei áður og muni aldrei aftur þiggja mútur af þessu tagi, sem sést best af því hve fljótir þeir voru að lofa endurgreiðslu á aurunum. Eða hvað? Um leið má velta fyrir sér hvaðan þeir ætla að sækja aurana til endurgreiðslunnar því vafalaust eru þessar 55 milljónir löngu búnar og talsverðar skuldir eftir dýrar kosningabaráttur undanfarinn áratug. Kannski eru fleiri svona háar upphæðir í felum í einhverjum kjöllurum stórhýsisins á horni Skipholts og Bolholts.

Hin óheyrilega barátta Sjálfstæðismanna fyrir hagsmunum útgerðarauðvaldsins undanfarna daga styðja enn frekar þá skoðun sumra að talsverðir fjármunir séu enn á leiðinni inn í kosningabaráttuna bakdyramegin frá útgerðarfyrirtækjum. Þetta þarf ekkert að koma fram í bókhaldi flokksins. Ímyndum okkur að HB-Grandi kaupi heilsíðuauglýsingu á síðum Morgunblaðsins um ágæti Sjálfstæðisflokksins eða einstöku frambjóðenda. Slík auglýsing þarf hvergi að koma fram í bókhaldi Sjálfstæðisflokksins því HB-Grandi greiðir hana og Morgunblaðið gefur út kvittun til HB-Granda, en nafn flokksins kemur hvergi fram í bókhaldinu þótt auglýsingin sé hreinn áróður fyrir flokkinn. Auk þess heyrði ég, þótt óstaðfest sé, að einhverjir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á dögunum hefðu bæði reynt að beita þessari aðferð og viljað auglýsa nótulaust til að koma í veg fyrir að gera grein fyrir kostnaðarbókhaldinu við prófkjörið.

Sjálfstæðismenn eru sennilega ekkert einir um stórfellda mútuþægni í kosningasjóði sína þótt þeir séu örugglega langverstir. Þar má benda á hrikalegar auglýsingaherferðir Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2003 og 2007 svo ekki sé talað um Hummerherferðina 2006 sem skiluðu fáum sætum fyrir flokkinn þótt þeim tækist að lafa inni í borgarstjórn og á Alþingi. Þar væri gaman að vita hversu mjög útrásarvíkingar Framsóknarflokksins eins og Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson studdu flokkinn.

Ég ætla ekki að halda því fram að múturnar séu einskorðaðar við þessa tvo flokka þótt vafalaust hafi þeir verið stórtækastir á þessu sviði. Það er hinsvegar ekkert gaman fyrir flokk á borð við Samfylkinguna að hefja kosningabaráttu í dag með tveggja ára kosningaskuld á bakinu og bendir ekki til að stórfelldar mútugreiðslur til hennar hafi verið í gangi. Það er samt mikilvægt að allar greiðslur til flokksins alla þessa öld verði gerðar opinberar til að hreinsa andrúmsloftið.

Stuðningsfólk Samfylkingarinnar hefur aldrei verið hrifið af ofþenslu og fjármagnsaustri í auglýsingum fyrir flokk né frambjóðendur. Þar sönnuðust ágætlega hrikalegar auglýsingaherferðir eins frambjóðanda í prófkjörum fyrir kosningarnar 2003 og 2007 með engum árangri sem leiddi loks til þess að hann yfirgaf Samfylkinguna sem og umframeyðsla eins frambjóðanda í prófkjörinu á dögunum sem olli verri útreið en stefnt hafði verið að.


0 ummæli:







Skrifa ummæli