mánudagur, apríl 27, 2009

28. apríl 2009 - Ég kaus Evrópusambandið

Eftir kosningar gengur hver vinstri græninginn fram og heldur því fram að ekki hafi verið kosið um Evrópusambandið í kosningunum heldur einvörðungu endurreisn efnahagslífsins. Þetta er rangt hvað snertir minnst 30% þjóðarinnar. Við kusum endurreisn efnhagslífsins með hjálp inngöngu í Evrópusambandsins og létum alla vita sem vildu vita að fyrsta baráttumál Samfylkingarinnar í kosningunum var aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Er ég flutti heim frá Svíþjóð árið 1996 hélt ég áfram að styðja Alþýðubandalagið af gömlu vana, því einnig R-listann. Eftir að Alþýðubandalagið lagðist af og Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók við, hélt ég áfram að styðja VG þó með hálfum huga. Ég var þó efins, því hvorki studdi ég Evrópusambandsfjandskap Vinstri grænna né öfgafulla náttúruverndarstefnu þeirra. Það sem gerði þó útslagið var sú ákvörðun VG að slíta R-listasamstarfinu fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006 og í framhaldinu gekk ég með í Samfylkinguna.

Ég hefi ekki alltaf verið sátt við verk Samfylkingarinnar, sérstaklega eftir efnahagshrunið síðastliðið haust. Ég fann þó að ég var ekki ein um óánægjuna og á fundinum í Þjóðleikhúskjallaranum 21. janúar s.l., náði ég góðri sátt við Samfylkingarfélagið í Reykjavík sem tóku af skarið og létu alla vita að stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væri hið versta mál og bæri að slíta hið bráðasta.

Ég tók þátt í kosningabaráttunni á dögunum. Ég var sátt við kosningabaráttuna og ég var miklu meira en sátt við kraftmikla Evrópustefnu Samfylkingarinnar. Evrópustefnan sameinaði okkur og við urðum stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi.

Ef Samfylkingin verður ekki við kröfum kjósenda sinna og gerir ekki alvöru úr kröfum sínum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, mun fylgið hrynja af henni, mun hraðar en það kom, því fjöldi fólks veit að besta kjarabótin er aðild að Evrópusambandinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli