föstudagur, apríl 24, 2009

24. apríl 2009 - Er komið bullandi góðæri?

Ég heyrði áðan auglýsingu þar sem ung stúlka er sögð segja, að hún ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, af því að þá muni greiðslurnar af íbúðaláninu hennar lækka úr 120 þúsundum niður í 60 þúsund. Á sama tíma býður Framsóknarflokkurinn 20% lækkun lána eins og ekkert sé. Fleiri slík tilboð hefi ég heyrt að undanförnu, öll jafnfáránleg.

Ég næ þessu ekki. Er komið góðæri á Íslandi? Allt frá því ég man eftir mér hefur íslenskt efnahagslíf verið keyrt áfram í einni allsherjar rússíbanareið þar sem fólk er ríkt einn daginn og bláfátækt hinn næsta. Á síðstliðnu hausti hrundi allt og talað var um fleiri ára kreppu með miklu atvinnuleysi og erfiðleikum. Örfáum mánuðum síðar keppast hægri flokkarnir um að bjóða gífurlegan afslátt af húsnæðislánunum og benda meira að segja á að það kosti ekki neitt. Hverjir eiga þá að borga?

Einn þeirra sem standa fyrir þessum góðærisauglýsingum heitir Illugi Gunnarsson og hann telur ástæðulaust að ræða um styrki til sín í undanfara kosninga og vill halda umræðunni við hina alvarlegu stöðu efnhagsmála sem vart eru mikið mál ef marka má góðærisauglýsingarnar. Sjálf er ég ósammála manninum því ég vil vita hvort fólki í framboði sé treystandi áður en ég merki við flokkinn þeirra.

Annar sem stendur fyrir góðærisauglýsingum heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hann boðaði annað efnahagshrun í gær, en heldur samt áfram að boða 20% niðurfellingu lána. Skýringin á hruninu sem hann boðar felst kannski í þessum 20% sem hann ætlar að veita okkur.

Sjálf ætla ég að greiða ósk minni um stöðugleika í framtíðinni atkvæði mitt og sá stöðugleiki fæst einvörðungu með því að tengja efnahagslífið við efnahag annarra þjóða með inngöngu í Evrópusambandið og síðar upptöku alvöru gjaldmiðils.


0 ummæli:







Skrifa ummæli