þriðjudagur, apríl 14, 2009

14. apríl 2009 - Af heimilisbókhaldi

Frá síðustu áramótum hefi ég haft það fyrir venju að safna saman öllum greiðslukvittunum með það fyrir augum að koma mér upp heimilisbókhaldi. Þótt ég hafi haft ýmsar grunsemdir um bruðl á ýmsum viðum, var það ekki nóg og því nauðsynlegt að sjá bruðlið svart á hvítu.

Eftir nokkrar tilraunir við að flytja heimilisbókhald Landsbankans yfir á eigin tölvu gafst ég upp á stýringu annarra á fjármálum mínum, notaði páskahelgina í að útbúa mitt eigið heimilisbókhald í Excel og notaði seinnipartinn í gær til að færa inn á bókhaldið á eyðslunni allt frá áramótum. Ég viðurkenni alveg að mikið af ætluðu bruðli er ekkert bruðl, heldur eðlileg útgjöld, dýrir hlutir eins og klipping, fatnaður og lækniskostnaður, en samt. Ég fann fljótlega atriði þar sem má spara án þess að slíkt komi niður á mínu þægilega líferni. Vissulega mætti alveg fækka alveg ölinnkaupum, en það er ekki það versta. Það sem kom verst út miðað við ætlaða eyðslu voru daglegar nauðsynjavörur eins og matvæli og almennar heimilisvörur.

Mánaðarkostnaðurinn við heimilishaldið reyndist fjórðungi hærri en ég hafði áætlað. Er nema von að fólk eigi ekki fyrir mat lengur? Allt félagsmálabatteríið gengur út á að bjarga heimilinum frá því að missa húsin á uppboð, en sá hlutinn er hjá mér í nokkuð góðu jafnvægi og á það vafalaust við um fleiri. Á sama tíma hefur brauðið og viðbitið hækkað upp úr öllu valdi.

Vonandi að okkur takist að viðhalda núverandi stjórnarmynstri eftir kosningar og áhyggjurnar verða minni en ella.

-----oOo-----

Svo er sjálfsagt og eðlilegt að óska KR til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta 


0 ummæli:







Skrifa ummæli