föstudagur, apríl 10, 2009

10. apríl 2009 - Af sjóræningjum


Loksins, loksins, sögðu sumir þegar sjóræningjar réðust á dansk/bandaríska gámaskipið Maersk Alabama. Þeir sem svo kaldranalega orðuðu hlutina voru ekki að segja neitt grín. Alþjóðasamfélagið hefur gert alltof lítið til að stöðva þessa sjóræningja frá ódæðum sínum og ljóst að til að valdamenn vöknuðu, þyrfti skip frá valdaríki að lenda í höndunum á þeim.

Maersk Alabama er eitt minnstu gámaskipa Mærsk samsteypunnar, og lestar einungis um 1100 gámaeiningar, mun minna en Goðafoss og Dettifoss en nokkru meira en Arnarfell og Helgafell. Þá gengur skipið einungis 18 sjómílur og því auðveldari bráð en risaskip Mærsk af E gerð, en þau skip ganga 25 sjómílur og lesta á milli 11000 og 15000 gámaeiningar og fara reglulega um þetta varasama hafsvæði án vandræða.

Ég hefi að vísu haft lúmskt gaman af myndum af Maersk Alabama. Íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna gjarnan myndir af tveimur ólíkum skipum, en þeim til gleði má þess geta að seinni myndin er af Maersk Alabama ex Alva Mærsk. Það er skipið með yfirbygginguna aftast. Allskyns skip hafa verið sýnd með fréttum af þessu sjóráni og þar má nefna að danska blaðið Politiken birti mynd af Emmu Mærsk (einu risaskipanna) og kallaði Maersk Alabama. Sjálf hélt ég vart vatni af hrifningu minni á þessu risaskipi þegar það fór í sína fyrstu ferð haustið 2006 sbr fyrri færslur mínar um Emmu Mærsk.

http://velstyran.blogspot.com/2006/09/14-september-2006-jremba-og-strsta.html
http://velstyran.blogspot.com/2006/09/15-september-2006-bloggkaffi.html

Með því að ráðist hefur verið að skipi með bandaríska áhöfn er möguleiki á að bandaríski flotinn skerist í leikinn og beiti sér af afli til að stöðva þessi sjórán. Nógu lengi hafa farmenn þurft að sigla um þetta hafsvæði í óvissu um örlög sín.

Besta lausnin er þó sú að alþjóðasamfélagið komi á virku stjórnkerfi í Sómalíu svo hægt verði að stöðva sjóránin innan frá.


0 ummæli:







Skrifa ummæli