þriðjudagur, apríl 21, 2009

21. apríl 2009 - Af spíttbátum og speedbátum

Í gamla daga lét maður sig dreyma um að fá sér hraðbát og fylla af sprútti og öli, skreppa yfir hafið og losa í einhverjum eyðifirði og síðan út aftur. Aldrei varð neitt úr þessum hugmyndum enda dýrt að flytja nokkra ölkassa og fáeinar flöskur af brennivíni yfir hafið á þennan hátt og þyrfti að vera í talsverðu magni til að ferðin borgaði sig en þetta var á meðan enn ríktu áfengishöft á Íslandi með banni á sölu á áfengu öli. Nú hefur önnur kynslóð Íslendinga framkvæmt þessa sömu hugmynd, en ekki með sömu vörur og við höfðum í huga. Munurinn er þó sá að þeir nota ekki speedbáta (þ.e. hraðbáta) til flutninganna heldur spíttbáta með seglbúnaði.

Mér finnst þetta fáránlegt. Fyrir tveimur árum var hópur ungra manna gripinn fyrir dópsmygl með spíttbát og dæmdir til langrar fangelsisvistar. Núna lendir annar hópur í þessu sama og maður spyr sig hvort þessir ungu menn læri ekkert af reynslunni? Af hverju voru bátverjar ekki á gangmiklum mótorbát, bát sem gengur á minnst 30 mílna hraða?

Um leið fer ég að velta fyrir mér hvort þetta sé fyrsta ferðin eða hvort svona ferðir hafi verið farnar áður, þ.e. aðrar en þær tvær sem komust upp og svo ein ferð nokkru fyrr þar sem mjög ákveðinn grunur var um stórfellt fíkniefnasmygl. Einnig má spyrja sig þess hvort þessir menn hafi ekki verið undir eftirliti í lengri tíma og þá skiptir auðvitað engu máli hvort þeir sleppi aftur yfir hafið á hraðbátnum, þeir verða gripnir samt. Loks er álitamál hvort markaðurinn fyrir dýru efnin eins og kókaín sé búinn með efnahagshruninu þegar haft er í huga að samkvæmt upplýsingum lögreglu er stór hluti smyglsins hass og marjúana.

En við getum samt huggað okkur við að þessi farmur náðist og muni vonandi virka sem fælingarmáttur á næsta hóp dópsmyglara.


0 ummæli:







Skrifa ummæli